Talsmaður útgerðarmanna í Noregi segir eðlilegt að Íslendingar nýti sér innflutningsbannið til Rússlands og sér ekkert siðferðislega rangt við það. Hann sér jafnframt tækifæri fyrir Norðmenn að flytja síld í meiri mæli til Íslands.

Audun Marak, yfirmaður samtaka norskra útgerðarmanna, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að hann geri ráð fyrir að Ísland og Færeyjar, sem ekki eru á lista yfir þær þjóðir sem yfirvöld í Rússlandi hafa lagt á innnflutningsbann á matvæli, hlaupi í skarðið og auki hlutdeild sína á markaðnum.

Rússar hafa keypt stóran hluta af þeirri síld sem Norðmenn flytja út en með innflutningsbanninu lokast fyrir það. Audun segir að innflutningsbannið sé óheppilegt en þó megi ekki gera of mikið úr vandanum, heldur verði að finna aðra markaði fyrir fiskinn. Hann segir mögulegt að hluti af síldinni geti farið um Ísland og þaðan til Rússlands. Að sögn Audun gæti verið Íslandi í hag að kaupa norska síld.