Gengi krónunnar hefur veikst um tæplega 6% í september. Seðlabankinn greip inn í atburðarásina á gjaldeyrismarkaði til að hindra frekari lækkun krónunnar í gær. Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, segir að viðbrögðin séu ekki óeðlileg miðað við fregnir síðustu daga. „Gjaldeyrismarkaðurinn er mjög framsýnn markaður og þar er fremur lítil velta á honum þannig að það þarf tiltölulega litlar fjárhæðir til að hreyfa hann. Það liggur þá alveg í augum uppi ef að það eru væntingar um að gjaldeyrisjöfnuðurinn sé að versna þá eru það eðlileg viðbrögð að gengi krónunnar lækki. Annað hvort þá vegna þess að Wow lendi í vandræðum sem hafi áhrif á ferðaþjónustuna eða ef af að hækka eigi að laun töluvert í komandi kjarasamningum sem valdi því að innflutningur eykst og samkeppnisstaða útflutningsfyrirtækjanna versnar,“ segir Ásgeir.

Von á frekari inngripum?

Seðlabankinn greip inn í á gjaldeyrismarkaði á þriðjudag í fyrsta sinn síðan í júlí 2017 til að hindra frekari veikingu á gengi krónunnar. Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, bendir á að stefna Seðlabankans sé að draga úr „óæskilegum sveiflum“ á gjaldeyrismarkaði. „Það verður því áhugavert að fylgjast með því að hve miklu leyti Seðlabankinn mun grípa inn í haldi krónan áfram að veikjast og að hve miklu leyti inngripin nú eru stefnumótandi. Seðlabankinn er með hreinan gjaldeyrisforða upp á 660 milljarða króna og hefur því talsvert svigrúm til þess að grípa inn í á gjaldeyrismarkaðnum. Hvernig Seðlabankinn beitir sér mun því ráða talsvert miklu um það hvernig krónan sveiflast á næstunni,“ segir Stefán Broddi.

Greiningardeildin hafi verið þeirrar skoðunar að krónan hafi verið fullsterk og spáð veikingu. „Þessi veiking er hins vegar að eiga sér stað talsvert hraðar en við reiknuðum með. Það er reyndar tilgangslítið að spá fyrir um skammtímasveiflur í gengi gjaldmiðla og afar erfitt að sjá fyrir skammtímaflæði.“

Veiking krónunnar hefur margvislegar afleiðingar

Líklegt sé að óvissa um niðurstöðu skuldabréfaútboðs WOW og umræða um áhrif á ferðaþjónustuna valdi umræddri gengisbreytingu, þrátt fyrir margar hagtölur hafi reynst betri en búist hafa verið við.„Meðan sú óvissa ríkir er líklegt að einhverjir bíði með að kaupa krónur eða vilji draga úr áhættu sinni gagnvart krónunni. Þetta veldur meira útflæði en innflæði og þar með veikist krónan. Þessi óvissa hefur skyggt á nokkuð góða hagvísa að undanförnu, eins og t.d. hagvaxtartölur sem voru langt umfram væntingar og tölur um fjölda ferðamanna í ágúst sem voru betri en t.d Isavia hafði spáð,“ segir Stefán Broddi.

„Því miður þá leiðir veikari króna yfirleitt aukinnar verðbólgu, en á móti batnar samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og þá sérstaklega útflutningsgreinanna, að öðru óbreyttu. Að lokum má bæta við að erlendar eignir lífeyrissjóðanna hækka í krónum, eigið fé Seðlabankans styrkist og jákvæð erlend staða þjóðarbúsins verður enn jákvæðari,“ segir Stefán Broddi.