Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í kosningaþætti RÚV að hann teldi það eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn myndi leiða næstu ríkisstjórn að því gefnu að flokkurinn bætti við sig þingmönnum eins og tölur benda til á þessum tímapunkti.

Bjarni sagði einnig að hann treysti sér ekki að segja til um það í hvern hann myndi hringja. Hann lagði einnig áherslu á að það væri ekki tímabært að segja um hvernig komi til með að spilast út úr stöðunni.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, talaði um að staðan væri óljós að svo stöddu. Hún lagði áherslu á að skilaboðin væru líklega þau að kjósendur væru að kalla eftir aukinni fjölbreytni. Þó bendir hún einnig á að tveggja flokka stjórn væri ekki endilega ávísun á pólitískan stöðugleika.