*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Innlent 21. ágúst 2017 09:19

Edward býður sig fram í varaformanninn

Líkur eru taldar á að á landsþingi VG í byrjun október verði slagur um varaformanninn, en þegar hefur prófessor við HA tilkynnt um framboð.

Ritstjórn
Björn Valur Gíslason þá nýkjörinn varaformaður Vinstri grænna, á landsfundi flokksins í febrúar 2013.
Haraldur Guðjónsson

Í kjölfar tilkynningar Björns Vals Gíslasonar, sitjandi varaformans Vinstri grænna um að hann hyggðist ekki bjóða sig áfram fram í embættið hefur einn þegar tilkynnt um framboð en nokkrir aðrir orðaðir við framboð.

Hefur Edward H. Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri þegar boðað framboð að því er sagt er frá í Fréttablaðinu í dag en kjörið fer fram á landsþingi flokksins 6. til 8. október næstkomandi.

Önnur nöfn sem nefnd eru sem líklegir kandídatar í fréttinni eru Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé, auk Óla Halldórssonar, sveitarstjórnarmanns í Norðurþingi.

Björn Valur, sem starfað hefur sem varaformaður síðan 2013, komst ekki inn á þing síðasta haust, en hann hafði setið í þriðja sæti í kjördæminu. Einnig hafði hann reynt við prófkjör í Reykjavík en ekki haft erindi sem erfiði.