Á síðasta ári voru fluttar út vörur fyrir 466,9 milljarða króna en inn fyrir 473,5 milljarða króna fob, 514,7 milljarða króna cif. Halli var því á vöruskiptunum við útlönd sem nam 6,7 milljörðum króna. Útflutningur jókst um 53,0% frá fyrra ári á verðlagi hvors árs en innflutningur jókst um 19,9%.

Þetta kemur fram í heftinu Utanríkisverslun sem Hagstofan tekur saman. Hlutur sjávarafurða í útflutningi var 36,7% og iðnaðarvöru 52,1% en í innflutningi voru stærstu vöruflokkarnir hrá- og rekstrarvörur, fjárfestingarvörur og neysluvörur aðrar en mat- og drykkjarvörur.

Stærstu viðskiptalönd voru Holland í útflutningi og Noregur í innflutningi og var EES þýðingamesta markaðssvæðið, jafnt í útflutningi sem í innflutningi.