Stundum minna vinnustaðir frekar á spítala en skrifstofu þegar maður heyrir starfsmenn sjúga í nefið, hósta og hnerra – sérstaklega á þessum árstíma þegar flensufaraldar ganga yfir.

Ef þér líður illa skaltu gera sjálfum þér og samstarfsfélögunum greiða og hringja inn veik/ur. Þér mun batna hraðar auk þess sem þú munt spara vinnuveitandanum fjármagn.

Þannig byrjar umfjöllun tímaritsins Forbes í dag þar sem fjallað er um veikindi starfsmanna. Í umfjölluninni kemur fram að veikindi hafi ekki eingöngu áhrif á þann sem er veikur hverju sinni, þ.e.a.s. vinnu hans heldur hafi þau einnig áhrif á samstarfsfélaganna sem eru líklegir til að smitast og vera frá vinnu.

Forbes segir að því fylgi fjárútlán vinnuveitenda þegar starfsmenn koma veikir til vinnu og smita aðra en samkvæmt rannsókn Society for Human Resources Management frá árinu 2007 er kostnaðurinn í Bandaríkjunum er talinn nema allt að 180 milljörðum dala á ári.

Þá segir í rannsókninni að kostnaðurinn við það að borga veikum starfsmönnum (sem mæta ekki til vinnu og smita því ekki aðra) nemi „aðeins“ 118 milljörðum dala.

Samkvæmt gögnum frá vinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna bjóða um 57% allra einkafyrirtækja vestanhafs starfsmönnum sínum upp á veikindadaga. Hins vegar sýni rannsóknir að starfsmenn hafi mikið samviskubit yfir því að mæta ekki til vinnu vegna veikinda. Þannig fari vinnubyrðin yfir á aðra, gögn hlaðast upp og erfitt verður að fara í gegnum þau síðar auk þess sem starfsmenn hræðast að fara í launa- og atvinnuþróunarviðtöl ef veikindi hafa verið mikil.

„Fæstir vilja vera heima með smá nefrennsli vitandi af því að samstarfsfélaginn þarf að vinna helmingi meira,“ hefur Forbes eftir Michael Smith, lækni.

„Samt getur það nú gert meiri skaða að mæta í vinnuna með kvef heldur en að vera heima 1-2 daga og jafna sig,“ segir Smith.

Þá tekur blaðið fram að ef þú ætlar þér að mæta í vinnuna með kvef, passaðu þá að þvo þér oft um hendurnar, ekki snerta síma eða lyklaborð annarra og reyndu að hósta og hnerra í bréf en ekki út í loftið. Hins vegar alls ekki mæta í vinnuna ef þú ert með hita.

Læknirinn Smith segir þó að starfsmenn eigi að nýta sér það að vinna heima ef þeir eru vinnufærir á annað borð.

Þá segir Forbes að vinnuveitendur séu fljótir að greina á milli þeirra sem hringja inn veikir reglulega án ástæðu og hinna sem sýna samvisku og dugnað í starfi en hringja inn veikir af og til og líklega af fullgildri ástæðu.