Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir það villandi að tala um að hann hafi keypt og selt hlutabréf í Össuri með aðeins örfárra mínútna millibili. Þetta segir hann í samtali við Vísi .

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær keypti Jón 1.250.000 bréf af Össuri og seldi strax aftur samkvæmt kaupréttarsamningi. Greiddi hann 8,55 danskar krónur, eða 168 íslenskar krónur, fyrir hvern hlut. Hann seldi svo hlutina sex mínútum síðar á 23,5 danskar krónur á hlut, og nam heildarhagnaðurinn af viðskiptum hans því rúmlega 367 milljónum króna.

„Svona eru kaupréttarsamningar. Árið 2012 er gert samkomulag um að ég geti keypt á genginu 8,55. Ég er ekki að selja eftir örfáar mínútur. Ég er að selja eftir tæplega 4 ár,“ segir Jón í samtali við Vísi.

Hann segir eðlilegt að söluhagnaðurinn sé töluverður enda hafi Össuri gengið vel. „Ef hlutabréfin hækka þá hækkar minn ágóði. Hlutabréfin hafa hækkað svona mikið á undanförnum árum.“