Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á stýrivaxtafundi bankans í gær að bankinn hafi ekki metið hver áhrif gengislánafrumvarps verði á fjármálakerfið því frumvarpið er ekki tilbúið. Hann sagði að sama hver niðurstaðan yrði því þá hafi íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til þess að veita fjármálastofnunum aukið eigið fé ef þess þarf.

Már var spurður að því hvort seðlabankinn hafi metið hvert áfallið verði á fjármálakerfið vegna frumvarpsins og hvort bankinn hafi tekið tillit til þess.

Í yfirlýsingu Más vegna afnám gjaldeyrishaftanna sagði hann óraunhæft að ætla að skref verði stigin fyrir árslok í afnámi hafta, að undanskildum þeim sem tengjast innflæði löglega fenginna aflandskróna. Það sé vegna þess að það gæti dregist til áramóta að bæta úr hugsanlegri vöntun á eigin fé í bankakerfi.

„Við höfum náttúrulega ekki metið hvaða áhrif frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra myndi hafa á fjármálakerfið því ennþá er verið að vinna það mál,“ sagði Már aðspurður um áhrif frumvarpsins. „Það sem ég var að vísa til í minni yfirlýsingu er að alveg sama hvað kemur út úr þessu að þá hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til þess í yfirlýsingu gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að það fari fram mat á eiginfjárþörf íslenska bankakerfisins. Það er fjármálaeftirlitið sem framkvæmir það. Ef það vantar eitthvað upp á og erlendir kröfuhafar vilja ekki koma með fjármagn þá kemur ríkið með það.“

Már sagði að þegar mat á eiginfjárþörf er lokið verði öllum vafa um skort á eigin fé eytt. „Þá er auðvitað tekið tillit til þess sem kann að gerast. Það er ekki þar með sagt að það sé hægt að kveða upp úr hvort fjármálakerfið njóti trausts þá. Við þurfum að spyrja okkur að því á þeim tímapunkti. En við getum ekkert gert þar til þetta ferli er búið.“