Til þess að gefa smá mynd af þeim mörkuðum sem Marel er að fara inn á með 70 milljarða króna yfirtökunni á Wenger Manufacturing LLC, þá er alþjóðlegur markaður fyrir gæludýrafóður metinn á yfir 100 milljarða evra og markaður fyrir fiskeldisfóður á yfir 50 milljarða evra. Áætlaður árlegur vöxtur þessara markaða er um 5-6%. Markaður fyrir plöntuprótein er um 7 milljarðar evra en búist er við töluvert meiri hlutfallslegum árlegum vexti á þeim markaði eða á bilinu 15-20%. Wenger framleiðir einmitt tæki og lausnir sem nýttar eru í matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi.

„Wenger er með góða tækni sem virkar á plönupróteinmarkaðnum og ef sá markaður fer á flug þá á hann eftir að margfaldast," segir Árni Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar og stefnumarkandi rekstrareininga hjá Marel. „ Í mjög einföldu máli þá snýst vinnslan um að taka prótein úr plöntum og búa til massa, sem er mótaður í ýmislegt eins og hamborgara, pylsur og fleira nema það eru engar dýraafurðir í þessum vörum.

Einn af þekktustu kúnnum Wenger á þessum markaði er Beyond Meat. Í grunninn eru þessar vörur vegan, en það sem keyrir markaðinn áfram er það sem er kallað flexitarian ,“ segir Árni en það orð er samsett úr ensku orðunum flexible og vegetarian og er skírskotun í neytendur, sem leggja áherslu á grænmeti en leyfa sér stundum að borða dýraafurðir. „Þetta er sístækkandi hópur neytenda, sem leggur áherslu á fjölbreytni í fæðuvali.“

Í yfirtökunni á Wenger var Marel að keppa við stóra bandaríska fjárfestingasjóði, sem og önnur fyrirtæki og segir Árni þá skipta miklu máli að hafa öflugt og reynslumikið teymi. „Það var gríðarleg samkeppni en á endanum skipti mestu máli að fjölskyldan treysti okkur fyrir fyrirtækinu.“

Stofna góðgerðarsjóð

Heildarkaupverð Wenger er 540 milljónum dollara, þar af eru 530 milljónir heildarvirði Wenger en eftirstandandi 10 milljónir dollara eru meðal annars framlag Marel í góðgerðarsjóð sem stofnaður verður í nafni Wenger í bænum Sabetha.

„Þetta er til í Evrópu en algengara í Bandaríkjunum. Fjölskyldan, hluthafarnir í Wenger, leggur mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og að Wenger verði áfram stór hluti af samfélaginu í Sabetha, sem er mjög lítill bær, það lítill að fæstir Bandaríkjamenn vita hvar hann er. Við lögðum því til að stofnaður yrði góðgerðarsjóður, sem myndi styðja við þetta litla samfélag með fjárframlögum í ýmis verkefni sem nýtast bæjarbúum. Við sjáum fyrir okkur að sjóðurinn geti staðið straum af kostnaði við byggingu leikvalla, körfuboltavalla, nú eða við að laga leikskólann ef þess þarf. Þetta eru einhver verkefni í þessum dúr, sem sjóðurinn mun styrkja.“

Skoða áfram í kringum sig

Árið 2017 setti Marel sér þá stefnu að vera með 12% árlegan meðalvöxt yfir til ársins 2026. Yfir helmingur vaxtarins hefur verið í formi yfirtaka og restin innri vöxtur.

Spurður hvort Marel hyggist styrkja þessa nýju fjórðu stoð með frekari yfirtökum svarar Árni: „Þetta er góð spurning. Fyrsta verkefnið verður að samþætta rekstur Wenger og Marel en við munum samt halda áfram að skoða í kringum okkur. Við munum vafalaust leita ráða hjá stjórnendum Wenger í þessu sambandi því þeir þekkja þessa markaði vel. Þó við höfum vaxið með yfirtökum þá má ekki gleyma því að með því að koma okkar vöruframboði Marel inn í Wenger þá er það innri vöxtur. Þetta helst því í hendur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .