„Við viljum mikið á okkur leggja til að Icebank og sparisjóðirnir komist í gegnum þessa erfiðleika sem nú eru á markaðnum,“ segir Agnar Hansson, forstjóri Icebank.

Viðskiptablaðið hefur undir höndum tillögur Icebank að skipulagi sparisjóðakerfis á Íslandi. Tillögurnar eru þó enn sem komið er aðeins vinnuplagg og hafa ekki verið kynntar öðrum sparisjóðum eða viðskiptaráðherra.

„Ég hef miklar áhyggjur af því ástandi sem gæti skapast án sparisjóðanna, nú þegar ríkisbönkunum er öllum tryggð gjaldeyris- og greiðslumiðlunargátt í gegnum JPMorgan. Ef Icebank og sparisjóðirnir verða ekki til staðar þá verður í raun bara ein miðlun fyrir þessa hluti út úr landinu. Manni dettur helst í hug að líkja því við einokunarverslunina við Dani,“ segir Agnar. „Stóru bankarnir þrír eru ekki að fara að stofna til nýrra viðskiptasambanda erlendis á næstu árum, þeir eru rúnir trausti. Ef eina greiðslumiðlun út úr landinu verður í gegnum JPMorgan þá verður þessi bandaríski banki með okkur í vasanum. Það er mjög mikilvægt að menn hugsi dæmið aðeins fram í tímann.“

Agnar gagnrýnir jafnframt Seðlabankann fyrir fyrirkomulag gjaldeyrisviðskipta þessa dagana, en Icebank hefur verið neitað um að kaupa gjaldeyri. Agnar segir að upphæðir sem lítið munar um fyrir Seðlabankann geti verið Icebank og sparisjóðunum lífsnauðsynlegar, og að greiða ætti fyrir viðskiptunum til að halda í fjölbreytni á markaði. „Ef sparisjóðirnir fara verður hér einokunarverslun.“

Tillögur Icebank

Í tillögum Icebank segir að til að treysta sparisjóðakerfið þurfi starfsemi Icebank og Byrs að vera sett undir einn hatt og taka um leið yfir stjórnun á Spron og Sparisjóði Mýrarsýslu. Sú rekstrareining myndi hafa á höndum fjárstýringu, áhættustýringu og ýmsa bakvinnslu fyrir alla aðra sparisjóði landsins.

Í tillögunum er gert ráð fyrir að rekstur sparisjóða á landsbyggðinni verði einfaldaður og þeir þiggi miðlæga þjónustu og stuðning frá rekstrareiningunni við stærri ákvarðanatökur.

„Sparisjóðir og Icebank eru í skilum gagnvart öllum sínum erlendu lánardrottnum í dag og flest þessara fyrirtækja búa við mjög góða lausafjárstöðu í íslenskum krónum og eru innlán að aukast í flestum eininganna í kjölfar atburða síðustu daga. Icebank finnur fyrir mikilli velvild erlendis í ljósi þess að bankinn stendur enn í skilum í kjölfar afdrifa stóru bankanna,“ segir í tillögum Icebank.

Einnig vill Icebank kanna fýsileika þess að rekstur og umsjón með t.a.m. Byggðastofnun og Lánasjóði sveitarfélaga verði tekin yfir.

„Til lengri tíma gætu gefist tækifæri til frekari sameininga í sparisjóðakerfinu þegar ytri aðstæður leyfa en vegna lánasamninga erlendis sem myndu gjaldfalla ella er ekki hægt að fara í lögformlegan samruna eins og er heldur er tillagan að ofangreind leið verði farin,“ segir í tillögunum.

Reiknað er með að ná megi fram kostnaðarhagræðingu upp á 5 milljarða króna á árinu 2008 með sameiningaraðgerðunum.

Fá þyrfti stuðning ríkisstjórnar Íslands, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans til að hefjast handa við hagræðinguna. Gert er ráð fyrir að sameinaða einingu vanti um 20 milljarða króna til viðbótar í eigið fé og er starfshópi, sem skipaður er fulltrúum Fjármálaeftirlitsins, Byrs, Icebank og SÍSP, ætlað að ræða við Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneytið, lífeyrissjóðina og aðra hagsmunaaðila um mögulega aðkomu að verkefninu.