„Ég verð að hrósa Sigurði Atla Jónssyni forstjóra MP banka og hans teymi að hafa farið í gegnum þær breytingar. Þeir héldu sinni stefnu og nú er búið að hagræða verulega innan bankans. Það er búið að skerpa fókusinn að vera fyrst og fremst fjárfestingarbanki en veita fjárfestingarbanka-viðskiptavinum líka viðskiptabankaþjónustu. Þetta er ákveðin breyting frá því sem við lögðum upp með þegar við fórum af stað. Þá gerðum við ráð fyrir að það yrðu meiri hræringar innan viðskiptabankanna þannig að við vorum með jafnar áherslur. Nú er búið að breyta um stefnu og ég tel það mjög jákvætt,“ segir Skúli Mogensen.

Var gagnrýnin á þessar breytingar í MP banka óvægin í ykkar garð?

„Nei, þetta var allt eðlilegt. Við búum í litlu samfélagi og það míglekur allt hérna. Keppinautar eru að reyna að koma höggstað á andstæðinga sína og þetta er hluti af því að eiga í viðskiptum hér. Á endanum held ég að þeir sem raunverulega þekki aðstæður kunni að meta það þegar fólk lætur verkin tala og hefur þor og getu til að framkvæma. Það er eitthvað sem við erum að tileinka okkur hjá WOW air. Það tók okkur tvö ár að fínstilla okkur og koma okkur í gegnum það. Við gerðum fullt af mistökum, rákum okkur oft á veggi, fengum marbletti og glóðarauga og svo framvegis. En við efldumst og styrktumst með hverri rauninni og lærðum af því og stóðum upp og héldum áfram að hlaupa. Ef við tökum dæmi úr tæknigeiranum og Kísildalnum sem er mekka tækni og nýsköpunargeirans þá er þar skilningur er á mistökum frumkvöðla. Fyrir vikið þorir fólk að fara af stað og gerast frumkvöðlar. Það er ekki eins og íslenska stemningin sem hefur verið sú að ef þú græðir þá ertu glæpamaður en ef þú ferð á hausinn þá ertu vitleysingur.“

Ítarlegt viðtal við Skúla Mogensen er í Viðskiptablaðinu frá 30. október.