Risaráðstefna verður haldin á vegum Microsoft Íslandi dagana 19. og 20. janúar. Þar verður farið yfir það mikilvægasta sem fram kom á alþjóðlegu ráðstefnunum TechEd og Convergence sem haldnar voru undir lok síðasta árs í Bandaríkjunum og Danmörku.

Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi segir viðbrögðin við þessu framtaki hafi farið fram úr björtustu vonum. Þegar hafa um 200 manns skráð sig á ráðstefnuna sem Halldór telur mjög mikilvæga svo þeir sem starfa við upplýsingatækni geti viðhaldið þekkingu og tileinkað sér nýjungar eins fljótt og hægt er.

Meðal hápunkta ráðstefnunnar verður frumflutningur Miha Kralj, hugbúnaðarhönnuðar og ráðgjafa hjá Microsoft, á fyrirlestrinum „What the *cloud* is my CIO thinking“ sem erlent tæknifólk mun ekki sjá fyrr en á TechEd í Bandaríkjunum í febrúar.

Þetta er í fyrsta sinn sem Microsoft Íslandi heldur slíka ráðstefnu og er það ekki komið til af góðu. Ástæðan er algjört hrun í þátttöku íslenskra þekkingarstarfsmanna á alþjóðlegum ráðstefnum og námskeiðum á síðustu mánuðum. Þar hafa íslensk fyrirtæki verið mjög áberandi undanfarin ár.

Microsoft Íslandi hefur skipulagt hópferðir á ráðstefnur og námskeið á vegum Microsoft erlendis og hefur verið mikil þátttaka síðustu ár. Árið 2007 fóru til dæmis um 350 manns á helstu ráðstefnur á vegum Microsoft en á síðasta ári hrundi fjöldinn hins vegar niður í 60. Það þýðir að fækkun þeirra tæknimanna sem gátu tekið þátt í símenntunarferðum á vegum Microsoft var vel yfir 80%.

„Við gátum ekki setið hjá og hreinlega horft á íslenskt tæknifólk dragast aftur úr erlendum keppinautum og það á tímum sem beinlínis krefjast þess að upplýsingatæknigeirinn á Íslandi komi sterkar inn við uppbyggingu atvinnulífsins. Þess vegna ákváðum við að ráðast í þetta verkefni og hugsa það sem framlag Microsoft Íslandi til eflingar íslenskrar upplýsingatækni. Þarna geta þeir sem starfa við eða eru að leita sér að störfum í upplýsingatækni eða stjórnun ekki bara kynnt sér það nýjasta á sínu sérsviði, heldur líka séð hvernig íslensk fyrirtæki á borð við Annata og LS Retail hafa náð frábærum árangri á erlendum mörkuðum. Og hvað er mikilvægara en það að gera íslenskan þekkingariðnað sem samkeppnishæfastan á tímum sem þessum?“ segir Halldór Jörgensson.

Ráðstefnunni er skipt í þrjár línur; TechEd Developers , sem er sérsniðin fyrir forritara, TechEd IT Pro , sem er ætluð tæknimönnum og stjórnendum tölvudeilda, og Convergence , þar sem aðaláherslan er á viðskiptalausnir Microsoft og efnið sniðið að stjórnendum fyrirtækja og stofnana.

Aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis til að tryggja að allir sem áhuga hafa geti nýtt sér tækifærið óháð fjárhag.