Ekki eru allir sammála um ágæti þess að breyta íslensku húsnæðiskerfi til samræmis við það danska. „Ég sé ekki alveg þörfina á þessari breytingu,“ segir Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion banka. Hann segir að róttækar breytingar á kerfi sem hafi gefist vel leggist ekki vel í fólk í fjármálageiranum.

Stefán telur að á seinustu árum hafi verið stigin mikilvæg skref til að styrkja stoðir íslensks húsnæðiskerfis sem geri innleiðingu danska kerfisins að mestu óþarfar. „Það er búið að gera mjög mikilvægar breytingar varðandi fjármögnun á íbúðarlánum, til dæmis með lögum um sértryggð skuldabréf frá árinu 2008,“ segir Stefán.

Umræðan á villigötum

Samkvæmt nýjustu hagsjá Landsbankans, sem ber forskriftina „Viðteknar skoðanir ekki alltaf réttar“ er umræða um húsnæðismál á Íslandi á villigötum. Margir vilji láta líta út sem húsnæðismál Íslendinga séu í miklum ólestri þó að það sé ekki raunin. Til að mynda sé hlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum hér á landi einungis 16,5 prósent, sem er í meðallagi í Evrópu. Í samanburði sé sami kostnaður rúm 25 prósent í Danmörku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.