Ragna Árnadóttir segist ekki sannfærð um að frekari launalækkun opinberra starfsmanna leysi vandann í ríkisfjármálum þó óhjákvæmilegt geti verið að grípa til slíkra aðgerða í einhverjum tilvikum.

Spurning blm. Margar þjóðir í heiminum hafa farið út í sársaukafullar aðgerðir í ríkisfjármálum vegna efnahagsþrenginga. Í mörgum tilvikum hafa þær falist í því að lækka laun opinberra starfsmanna fremur en að segja þeim upp eða leggja niður stofnanir. Telur þú mögulegt að lækka laun opinberra starfsmanna enn meira til að ná betri tökum á ríkisfjármálunum?

„Það er þegar búið að lækka laun að einhverju marki og ég er ekki sannfærð um að lækkun launa leysi vandann, þótt óhjákvæmilegt kunni að vera að grípa til slíkra aðgerða. Það sem hefur gerst er að það er almennt meira álag á starfsmönnum ráðuneytisins og undirstofnunum þess. Bæði vegna aukinna verkefna í kjölfar kreppunnar og líka vegna þess að ekki er ráðið í stöður sem losna. Alltaf snýst þetta um forgangsröðun verkefna þegar kemur að hagræðingunni. Við í ráðuneytinu mínu höfum þegar farið yfir alla þætti sem heyra undir ráðuneytið og niðurstaðan er alveg skýr. Það er engin töfralausn til. Það er ekki hægt að fella niður einhver embætti þar sem verkefnin eru alltaf til staðar og það þarf að sinna þeim. Ég get líka sagt að ýmis embætti hafa litla fjármuni milli handanna þegar horft er til verkefnanna sem þau þurfa að sinna. Þetta á til dæmis við um Landhelgisgæsluna sem hefur gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna. Það þarf að fylgjast mjög grannt með málum þar svo að þjónustan sé eins og við viljum hafa hana. Það er sameiginlegt verkefni gæslunnar og ríkisins að finna flöt á því til framtíðar litið. Það er hins vegar alveg eins þar og víða annars staðar að fjárhagsstaðan gefur því miður ekki tilefni til þess að setja eins mikla peninga í verkefni ráðuneytisins eins og maður glaður vildi.“

Sjá ítarlegt viðtal við Rögnu í Viðskiptablaðinu.