Greiningardeild KB banka heldur áfram að gagnrýna viðskipti Orra Vigfússonar og Burðarás með bréf í Íslandsbanka í Hálffimm fréttum sínum í dag. "Engu er líkara en að Burðarás hafi aldrei selt bréfin og að markaðsáhættan hafi legið hjá félaginu á umræddum tímabili þrátt fyrir að félagið hafi fært söluhagnað af viðskiptunum í þriggja mánaða uppgjöri sínu. Æskilegt væri fyrir jafnstórt félag og Burðarás að skýra þessi viðskipti sín nánar til að halda trúverðugleika sínum og stöðu sem einn af burðarásum Kauphallarinnar," segir í Hálffimm fréttum KB banka.


Þar er bent á að rétt fyrir lokun markaða í gær birtist ný tilkynning í Kauphöllinni vegna sölu Guðbrands Orra Vigfússonar á Eignarhaldsfélaginu Urriða ehf. ásamt 5,43% eignarhlut í Íslandsbanka. Verð á bréfum Íslandsbanka í þessum viðskiptum var ekki tilgreint með beinum hætti í þessari tilkynningu en eins og fram kom í Hálffimm fréttum á þriðjudaginn var það talið furðu sæta að Kauphöllin hefði ekki farið fram á upplýsingar um verðið í þessum viðskiptum. Þess í stað voru birtar eftirfarandi upplýsingar um verðlagningu viðskiptanna:

?Til grundvallar kaupverðinu fyrir Eignarhaldsfélagið Urriða liggur það verð sem var á hlutabréfum í Íslandsbanka þegar Guðbrandur Orri keypti bréfin með framvirkum samningi þann 25. febrúar síðastliðinn."

"Þrátt fyrir að ekki komi fram eiginlegt gengi á bréfum Íslandsbanka má skilja þessar viðbótarupplýsingar um viðskiptin á þá leið að Burðarás hafi keypt bréfin á sama verði og Orri keypti þau á 25. febrúar síðastliðinn. Tilkynningin gefur því til kynna að viðskiptin hafi gengið tilbaka á upphaflegu samningsgengi.

Sé þetta réttur skilningur á ofangreindri tilkynningu verða það að teljast nokkuð einkennilegir viðskiptahættir, að Orri skuli skila bréfunum án þess að hafa nokkuð upp úr viðskiptunum. Sér í lagi þegar skoðuð er verðþróun á bréfum Íslandsbanka á þeim 6 mánuðum frá því að viðskiptin fóru upphaflega fram, en á þeim tíma hefur gengi Íslandsbanka hækkað um rúmlega 35% og markaðsvirði bankans aukist um tæplega 23 milljarða króna," segir í Hálffimm fréttum.

Eins og áður segir er fréttatilkynningin um innherjaviðskipti Guðbrands Orra Vigfússonar, sem birtist í gær í Kauphöllinni, afar óljós og engar upplýsingar þar að finna um á hvaða gengi viðskiptin fóru fram. Haft er eftir Þórði Friðjónssyni, forstjóra Kauphallarinnar í Morgunblaðinu í dag að ítrekað hafi verið farið fram á það að upplýsingar samkvæmt 46. ? 48. grein laga um verðbréfaviðskipti yrðu gefnar um viðskiptin. Því ber að fagna enda vænlegt fyrir trúverðugleika Kauphallarinnar og skilvirkni íslenska hlutabréfamarkaðaðar að markaðsaðilar veiti slíkar upplýsingar. Það verður hins vegar að teljast nokkuð sérstök niðurstaða að hér sé um ?viðunandi upplýsingagjöf að ræða?, eins og haft er eftir forstjóra Kauphallarinnar í Morgunblaðinu í dag.

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Orra að Burðarás hafi verið eini aðilinn sem vildi kaupa 5,43% hlut hans í Íslandsbanka í heilu lagi, aðrir aðilar hafi aðeins sýnt áhuga á að kaupa hluta bréfanna. Að þeirri ástæðu taldi Orri það ?skynsamlega ákvörðun? að losa sig við bréfin í einu lagi til Burðaráss. Skynsemin í viðskiptum sem þessum verður þó að teljast nokkuð vafasöm, að selja stóran hlut í banka (sem tryggði sæti í stjórn) á gengi sem er langt undir núverandi verði á markaði. Engu er líkara en að Burðarás hafi aldrei selt bréfin og að markaðsáhættan hafi legið hjá félaginu á umræddum tímabili þrátt fyrir að félagið hafi fært söluhagnað af viðskiptunum í þriggja mánaða uppgjöri sínu. Æskilegt væri fyrir jafnstórt félag og Burðarás að skýra þessi viðskipti sín nánar til að halda trúverðugleika sínum og stöðu sem einn af burðarásum Kauphallarinnar.