Að óbreyttu mun rekstrarhagnaður Farice, sem rekur samnefndar sæstreng, ekki duga fyrir greiðslu vaxta og afborgana á árunum 2017 og 2018. Fyrirtækið hefur einungis 1,1 milljón evra veltufjármuni upp á að hlaupa. Þetta jafngildir 170 milljónum króna.

Þetta er mat Brynjars Arnar Ólafssonar. Hann skrifaði um málið í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Brynjar bendir á að frá árinu 2008 hafi Farice skilað 2-10 milljóna evra tapi á hverju ári og treyst á umbreytingu lána og nýs hlutafjár. Hann rifjar upp að árið 2009 hafi félagið ekki uppfyllt skilyrði lánasamninga þar sem kúnnar stóðu ekki við umsamdar greiðslur. Í kjölfarið var ráðist í uppstokkun á fjárhag Farice og félagið endurfjármagnað.

Brynjar dregur fram að um 65% af skuldum Farice er skuldabréfaflokkur upp á 5,8 milljarða króna til 20 ára. Önnur lán eru í erlendum gjaldmiðlum, mest í evrum. Álag ofan Euribor og Libor er á bilinu 0,8 - 4,5%. EFAR 09 1 er 20 ára verðtryggt jafngreiðslubréf með 5,5% vaxtamiða sem greiddur er tvisvar á ári. Flokkurinn hefur uppgreiðsluheimild sem er virk á fimm ára fresti, í fyrsta skiptið síðastliðinn apríl en félagið nýtti ekki heimildina. Við nýtingu hefði þurft að greiða aukalega 7% ofan á höfuðstól ásamt uppsöfnuðum vöxtum. Næst verður heimildin virk í apríl 2019 og við bætist 5% aukaálag. Þá segir Brynjar að fjórir viðskiptavinir Farice standi að baki 61% af leigutekjum félagsins, ásamt því að hið opinbera er með 21% sem á rætur sínar að rekja til fimm ára samnings félagsins við hið opinbera í apríl árið 2012.

Grein Brynjars má lesa í heild hér .