Trump, sem líklegastur er til að hljóta útnefningu Repúblikanaflokksins í komandi forsetakosningum, dregur í efa gildi þess fyrir Bandaríkin að eiga aðild að Nato í viðtali sem birtist í gær á heimasíðu Washington Post. Telur hann samkvæmt viðtalinu þjóðina ekki lengur hafa efni á því að vera partur af bandalaginu.

Í viðtalinu lýsir forsetaframbjóðandinn þeirri skoðun sinni að Bandaríkjunum sé hollast að einbeita sér að vandamálum heima fyrir og skipta sér í minna mæli að vandamálum annarstaðar í heiminum. Þá hefur Trump einnig efasemdir um viðveru Bandaríkjamanna í Asíu.

Auðjöfurinn telur að ríki á borð við Þýskaland og og Suður-Kóreu verði að axla meiri ábyrgð þegar komi að því að tryggja öryggi í Evrópu og Asíu. Máli sínu til stuðnings bendir hann á að Úkraína sé land sem hafi mun minni áhrif á Bandaríkin en önnur ríki innan Nato. Engu síðar beri bandaríkjamenn þungann af deilum í landinu. Í kjölfarið spyr hann afhverju Bandaríkin þurfi alltaf að vera leiðandi þegar komi að mögulegri þriðju heimstyrjöld gegn Rússlandi.

Ummælin fela í sér róttæka afstöðu gegn núverandi utanríkisstefnu Bandaríkjanna en enginn annar forsetaframbjóðandi hefur áður lagt til að Bandaríkin eigi að draga sig úr bandalaginu.  Sérfræðingar í utanríkismálum ytra hafa lýst því yfir að ógn stafi af þessum skoðunum Trump sem í framtíðinni geti leitt til sundrungar í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu.

Trump hefur nú dregið í land með yfirlýsinga sínar og sagði í viðtali við CNN fréttastofuna að hann vilji ekki draga úr hlutverki Bandaríkjanna innan Nato heldur aðeins draga úr fjárveitingum til bandalagsins.