*

þriðjudagur, 26. janúar 2021
Erlent 26. október 2020 19:16

Efast um gjaldfærni Trump

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, gæti lent í vandræðum með lánardrottna en lausafjárstaða hans er óljós.

Ritstjórn
Donald Trump gæti þurft að glíma við lánardrottna sína ef lausafé hans reynist af skornum skammti.
epa

Nær allar skuldir Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, eru með veði í fasteignum, en verðmæti fasteigna í stórborgum Bandaríkjanna hefur lækkað verulega í kórónukreppunni. Þetta kemur fram í umfjöllun Financial Times þar sem fjallað er um skuldir Trumps, auk þess sem látið er að því liggja að lausafjárstaða forsetans sé slæm. 

Trump skuldar að minnsta kosti 1,1 milljarð Bandaríkjadala, að mestu tengt byggingum og golfvöllum sem eru þungamiðja viðskiptaveldis Trumps. Um 900 milljónir dollarar af skuldum forsetans koma til greiðslu á öðru kjörtímabili hans, verði hann endurkjörinn.

Þrátt fyrir að hrein eign Trumps nemi um 2,5 milljörðum dollara eru uppi efasemdir um gjaldfærni forsetans, þar sem auður hans er að mestu bundinn í eignum og óljóst er hver lausafjárstaða hans er. Fjölskyldufyrirtækið, The Trump Organization, hefur ekki viljað svara fyrirspurnum um lausafjárstöðu viðskiptaveldis Trumps.

Samkvæmt athugun The New York Times hafa helstu tekjulindir forsetans dalað verulega, auk þess sem þeim hefur verið varið að miklu leyti í óarðbærar fjárfestingar í golfvöllum undanfarin ár.

Forsetinn skuldar sjálfum sér

Lendi Trump í greiðsluerfiðleikum munu lánadrottnar á skuldabréfamarkaði leika lykilhlutverk í samningsumleitunum, en þeim skuldar hann ríflega 250 milljónir dollara. Skuldir þessar eru með veði í sumum af frægustu byggingum Trumps, þar á meðal höfuðstöðvum hans á Manhattan, Trump Tower.

Trump er sagður skulda óþekktum lánardrottni tæplega hálfan milljarð dollara, vegna háhýsa í New York og Chicago sem hann á með Vornado Reality Trust. Lánið kemur til greiðslu á næstu tveimur árum. Trump skuldar auk þess nokkrum fjármálafyrirtækjum um 365 milljónir dollara, þar af nemur skuld hans hjá Deutsche Bank 350 milljónum dollurum.

Þá skuldar Trump 50 milljónir dollara hjá Chicago Unit Acquisition Trust, sem er í eigu hans sjálfs, en því hefur verið haldið fram að gjörningurinn gæti verið liður í því að komast undan skatti.