Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir það margsannað að hagtölur og meðaltöl, sérstaklega sett fram af OECD og fleirum, geti verið meingallaðar. Þetta er meðal þess sem Ragnar Þór segir í kappræðum í þættinum Þjóðbraut , á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi, þar sem hann mætti Konráð Guðjónssyni hagfræðingi Viðskiptaráðs.

Í spjallinu efaðist Ragnar Þór að hægt sé að taka mark á tölum hagstofu Evrópusambandsins og fleiri opinberra hagtalna sem almennt eru notaðar til samanburðar á milli landa. Konráð hefur oftsinnis, bæði í ræðu og riti bent á að hvergi í heiminum meðal OECD ríkja sé Gini stuðullinn, sem sýni muninn á hæstu og lægstu launum, lægri en hér á landi.

Einnig bendir hann á að tekjulægsti fimmtungurinn hafi hvergi á Norðurlöndunum jafn hátt hlutfall ráðstöfunartekna og hér á landi, og svo aftur þeir tekjuhæstu hvergi jafn lágt hlutfall af ráðstöfunartekjum.

Ragnar Þór sem eins og Viðskiptablaðið sagði frá boðaði skæruhernað á vinnumarkaði á kröfufundum 1. maí, dregur niðurstöðurnar sem lesa má út úr hagtölunum í efa. Hann segir að þær lýsi ekki raunveruleikanum og segir að þegar horft sé til ráðstöfunartekna hafi kaupmáttur ekki aukist almennt séð.

„Við höfum aðrar leiðir til þess að reikna út stöðu fólks,“ segir Ragnar Þór og dregur stórar ályktanir út frá því að þeir hjá VR hafi borið saman ráðstöfunartekjur til að mynda strætóbílstjóra og fólks í ummönnun í Svíþjóð og Íslandi og samkvæmt þeirra útreikningum séu þær mun minni hér á landi.

„Við höfum verið að taka bara beint og rannsaka ráðstöfunartekjur hópa í svipuðum stöðum, í svipuðum atvinnugreinum á milli landa og þar kemur þetta bara svart og hvítt í ljós.“