*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Innlent 29. júní 2017 09:09

Efast um talningu Ferðamálastofu

Framkvæmdastjóri Kynnisferða segir félagið ekki merkja sömu fjölgun í Flugrútunni og er í tölum Ferðamálastofu.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segist ekki merkja sömu aukningu í flugrútunni og eru í tölum Ferðamálastofu að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Við efumst um að talningin um Leifsstöð sé rétt. Ferðamaður er ekki ferðamaður hér nema hann gisti að minnsta kosti eina nótt,“ segir Kristján, en samkvæmt gögnum Ferðamálastofu hefur erlendum ferðamönnum fjölgað úr tæplega 500 þúsund í 1,8 milljónir á árunum 2009 til 2016.

„Annars vegar eru erlendir verkamenn sem hingað koma taldir með í þessum tölum auk annarra útlendinga sem hér starfa. Innflytjendum hefur fjölgað í 10,6% af mannfjölda við upphafs árs úr 8% árið 2012.

Hins vegar hafa margir keypt ódýrt flug til Íslands og fljúga svo áfram með öðru flugfélagi. Þegar flugið er ekki keypt sem einn miði neyðist ferðamaðurinn til að fara út um brottfararhliðið og aftur inn komumegin til þess að bóka sig í flugið. Við vitum ekki hve stóran hóp er að ræða.

En fjöldi Bandaríkjamanna hefur tvöfaldast á fyrstu fjórum mánuðum ársins og Spánverjum og Kanadamönnum hefur sömuleiðis fjölgað hratt. Þrátt fyrir það merkjum við ekki sambærilega aukningu í Flugrútunni sem við rekum. Undir venjulegum kringumstæðum ætti ávallt sambærilegt hlutfall ferðamanna að nýta Flugrútuna.“