*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 28. mars 2018 11:06

Efast um trúverðugleika forstjórans

Framkvæmdastjóri SA gagnrýnir Samkeppniseftirlitið sem kvartar undan önnum á sama tíma og unnið er að fjárlögum.

Ritstjórn
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Haraldur Guðjónsson

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gagnrýnir forstjóra Samkeppniseftirlitsins í nýjum pistli og segir hann eftirláta dómstóli götunnar að komast að þeirri niðurstöðu sem hann vildi ná en taldi sig ekki hafa tíma til.

Dregur Halldór Benjamín í efa trúverðugleika ummæla forstjórans en í fréttum í gær var haft eftir honum að Samkeppniseftirlitið hafi ákveðið að ljúka fimm ára rannsókn á samkeppnishamlandi samráði þriggja sjávarútvegsfyrirtækja án niðurstöðu vegna anna í öðrum málum.

Efast um að 5 ár hafi ekki dugað ef sannanir til staðar

„Á sama tíma vekur hann þau hugrenningartengsl að í rekstri fyrirtækjanna hafi eitthvað misjafnt átt sér stað,“ segir Halldór Benjamín sem efast um að stofnunin hafi ekki fundið tíma til að komast að því að brot hafi verið framin ef það telur sig hafa fyrir því sannanir. Rannsókn máls sjávarútvegsfyrirtækjanna þriggja sem um er rætt stóð yfir í 5 ár, eða frá árinu 2013.

„Næsta skref forstjórans er líklega að koma fram með lausnina. Hún felst vafalaust í auknum fjárveitingum til stofnunarinnar.“
Halldór Benjamín bendir á að svo skemmtilega vilji til að nú sé verið að vinna drög að fjárlögum ársins 2019.

Haldið í réttaróvissu árum saman með tilheyrandi kostnaði

Halldór og segir þetta alls ekkert einsdæmi meðal aðildarfyrirtækja SA, sem oft sé haldið í réttaróvissu árum saman. Eftirlitið fari fram með miklu kappi en lítilli forsjá sem kosti fyrirtækin tíma og fé í varnir en fátt sé um svör frá stofuninni þegar upp sé staðið.

„Dæmi eru um að heilu hillumetrarnir af gögnum og hundruð þúsunda tölvupósta fyrirtækja hafi verið afritaðir án nokkurra skýringa,“ segir Halldór Benjamín. „Hvorki spurningar né svör berast frá Samkeppniseftirlitinu. Fyrirtækin hafa enga leið til að verja sig og sjálfur Kafka hefði varla getað skrifað slíka atburðarás betur.“

Veltuviðmið hafa ekki breyst þó vísitalan hafi hækkað um helming

Halldór Benjamín segir í pistlinum sem birtist á heimasíðu SA undir fyrirsögn sem vísar í gamla viðtengingarvísu, að nú orðið nauðsynlegt að bæta samkeppnislögin og framkvæmd þeirra og komið sé að stjórnmálamönnum að hætta að forðast að ræða málið.

„Það er búið að beina því til ráðamanna í mörg ár að skerpa þurfi á lögum og færa framkvæmdina nær því sem gerist í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu,“ segir Halldór Benjamín sem segir alla landsmenn tapa á því ef starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja sé verra en annars staðar.

„Í samkeppnislögum er kveðið á um að velta fyrirtækja sem sameinast þurfi að vera yfir ákveðnum mörkum til að samruna þeirra þurfi að tilkynna til Samkeppniseftirlitsins. Þessi veltuviðmið hafa ekki breyst síðan í maí 2008. Síðan þá hefur vísitala neysluverðs hækkað um næstum 50%. Nærtækast væri því að minnka álag á stofnunina með því að hækka viðmiðin um að minnsta kosti helming.“