*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 25. mars 2020 13:28

Efast um útreikninga Seðlabankans

Hagfræðingi Viðskiptaráðs þykir sviðsmynd með um 1% samdrætti í einkaneyslu óhóflega bjartsýn.

Ritstjórn
Konráð S. Guðjónsson er hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands setur spurningamerki við útreikninga Seðlabanka Íslands um að einungis 1% samdráttur verði í einkaneyslu á árinu í því sem hann kallar mjög þjónustudrifið hagkerfi.

Veltir hann því fyrir sér í tísti á samfélagsmiðlinum Twitter hvort bankinn hafi skoðað undirliði einkaneyslu þar sem meira en helmingur undirliða sé að hverfa eða falla mikið í að minnsta kosti mánuð ofan í vaxandi atvinnuleysi og versnandi væntingar.

Undir tíst hans taka bæði Jón Bjarki Bentsson hagfræðingur Íslandsbanka og segir spána hljóma ansi væga og bendir á að einhver hluti neyslunnar komi heldur ekki strax til baka, og og Viðar Ingason hagfræðingur VR sem segist auðvitað vona að spá Seðlabankans verði raunin en segist eiga ansi erfitt með að trúa því.

Sviðsmyndir sýna ríflega 1 prósenti til tæplega 4 prósenta samdrátt

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun fór Þórarinn Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans yfir sviðsmyndagreiningu á mögulegri þróun hagkerfisins á næstunni vegna áhrifa útbreiðslu veirusýkingarinnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum og aðgerða til að stemma stigu við henni.

Þar reiknar Seðlabankinn með að ferðamönnum muni fækka um 90% á næstu mánuðum miðað við sama tíma í fyrra, en í annarri, mildari sviðsmyndinni, er gert ráð fyrir að eitthvað muni bjargast af sumrinu í ferðamennsku og að bati muni eiga sér stað á seinni hluta ársins en í þeirri dekkri er gert ráð fyrir að ástandið vari lengur.

Í sviðsmyndunum tveimur er vikið töluvert frá grunnspá bankans sem birtist í febrúar, en þar var gert ráð fyrir 4,2% atvinnuleysi, en í mildari sviðsmyndinni gerir bankinn að það verði 5,7%, en 7,0% í þeirri dekkri. Jafnframt er töluverð breyting í nýju sviðsmyndunum frá grunnspánni fyrir vöxt einkaneyslu, eða frá 2,4% vexti í samdrátt um 1,1% í mildari sviðsmyndinni í 3,8% í þeirri dekkri.

Ríflega helmingur undirliða fyrir áhrifum 

Konráð setur hins vegar fram sundurliðun helstu undirliða einkaneyslu á Íslandi, en á síðasta ári stóðu ferðamenn undir 19% þeirrar ríflega 1.500 milljarða króna sem neyslan nam á síðast ári.

Þannig nema þeir undirliðir sem líklegir eru til að verða fyrir tímabundnum samdrætti 16% af því, en það eru þá undirliðir eins og föt og skór, húsgöng og heimilisbúna og aðrar vörur og þjónusta sem ekki teljast til helstu nauðsynjavara og þjónusta.

Hins vegar nemi sú þjónusta sem líkleg er til að verða fyrir höggi af samkomubanni og fækkunar ferðamanna 39% af þeiri tölu, þar af séu ferðir og flutningar 13%, tómstundir og menning 11% og hótel og veitingastaðir 14%.

Þannig sé ríflega 55% einkaneyslu síðasta árs líkleg til að verða fyrir áhrifum af samdrættinum nú. Sem svar við viðbrögðum hinna hagfræðingann veltir Konráð fyrir sér í framhaldinu hvort sviðsmyndirnar geri á móti ráð fyrir meiri neyslu í haust.

„Verðum öll örugglega eins og belur að vori þegar þetta er búið en myndin er rosalega bjartsýn fyrir þetta ár alla vega,“ segir Konráð meðal annars.