Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins spyr hvenær sé hægt að lækka vexti ef það sé ekki hægt nú.

Pistill Ásdísar , sem skrifaður er á vef samtakanna ber yfirskriftina peningalegur ómöguleiki, en þar vísar hún í að það virðist vera að þrátt fyrir að verðbólga hér á landi sé viðvarandi undir verðbólgumarkmiðumþá þurfi vextir samt sem áður að vera háir.

Spyr hvað gerist þegar góðærinu ljúki

„Þrátt fyrir horfur á lágri verðbólgu og verðbólguvæntingar í markmiði töldu nefndarmenn ekki tilefni til vaxtalækkunar vegna hættu á vaxandi spennu í hagkerfinu,“ segir Ásdís og vísar í að verðbólguspá Seðlabankans geri ráð fyrir að hún verði undir verðbólgu fram á seinni hluta ársins 2018.

„Hvað gerist þegar góðærinu lýkur og efnahagsslaki myndast á ný, krónan veikist og verðbólguhorfur versna, munu vextir þá lækka? Leyfum okkur að efast um það.“

Lítið rætt um hliðaráhrifin

Ásdís segir hávaxtastefnu Seðlabankans draga úr fjárfestingu í landinu, dragi úr hvata til nýsköpunar og ýti undir efnahagslegt ójafnvægi þar sem gengisstyrking krónunnar færi neyslu úr landi.

„Það átti við fyrir hrun og á enn við í dag. Þessi hliðaráhrif er lítið rætt um á vaxtákvörðunarfundum. Það er ekki nauðsynlegt að vera eitt mesta hávaxtaríki heims. Ef ekki er hægt að lækka vexti núna hvenær þá?“