Sprotafyrirtækið Eff2 Technologies hlaut verðlaun fyrir Videntifier Forensic í hinni árlegu nýsköpunarkeppninni Genius í Austurríki. Að þessu sinni tóku þátt nærri hundrað sprotafyrirtæki og frumkvöðlar, og var Videntifier Forensic í þriðja sæti.

Þriðjudaginn 27. janúar fór fram verðlaunaafhending í Wiener Neustadt þar sem Ernest Gabmann iðnaðar- og viðskiptaráðherra í Austurríki afhenti verðlaunin. Eff2 Technologies tók þátt ásamt austurrískum samstarfsaðilum sínum, OLF EDV und Videotechnik segir í tilkynningu.

Videntifier Forensic er tæknilausn sem gerir lögreglumönnum kleift að bera kennsl á ólögleg myndbönd með sjálfvirkum hætti. Embætti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins er að hefja notkun á Videntifier Forensic og er áætlað að fleiri lönd taki kerfið í notkun síðar á árinu. Árangur Eff2 í Genius keppninni hefur vakið jákvæða athygli í Austurríki og skapað grundvöll fyrir viðræðum við lögregluyfirvöld þar í landi segir í tilkynningu.

Videntifier hefur hlotið mikla viðurkenningu, bæði hér heima og erlendis, og hlaut m.a. sigur í Innovit nýsköpunarkeppninni 2008.