*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 18. febrúar 2017 10:37

Efins um lögbundna launavottun

Félagar í Félagi atvinnurekenda telja að lögbundin jafnlaunavottun geti stuðlað að launajafnrétti, en að kostnaðurinn geti verið mikill.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Félagsmenn í Félagi atvinnurekenda eru flestir á þeirri skoðun að lögbundin jafnlaunavottun muni stuðla að auknu launajafnrétti, en afstaðan er engan veginn eins afgerandi þegar kemur að þeirri spurningu hvort þeir telji ávinninginn af slíkri vottun meiri en kostnaðinn fyrir sitt fyrirtæki. Er þetta meðal niðurstaðna í könnun, sem gerð var meðal félagsmanna í FA.

Þátttakendur í könnuninni voru beðnir að taka afstöðu til tveggja fullyrðinga. Annars vegar hvort lögbundin jafnlaunavottun myndi stuðla að auknu launajafnrétti og hins vegar hvort slík vottun hefði í för með sér meiri ávinning en kostnað fyrir viðkomandi fyrirtæki. Hvað varðar fyrri spurninguna töldu 52% þátttakenda að vottunin myndi leiða til meira launajafnréttis, en aðeins 13% töldu svo ekki verða. Munurinn er öllu minni hvað varðar síðari fullyrðinguna. Um 24% telja ávinninginn meiri en kostnaðinn, en um 23% telja kostnaðinn hins vegar yfirgnæfa ávinninginn. 53% aðspurðra telja ávinning og kostnað vega hvorn annan upp.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segist efins um ágæti þess að lögfesta þessa kvöð á fyrirtæki. „Það er ekki eins og atvinnulífið hafi ekki sýnt þessum málum áhuga. Mörg fyrirtæki hafa hafið vinnuna og sum eru mjög langt komin í ferlinu. Það væri eðlilegra að mínu mati að leyfa þessu ferli að fara alla leið áður en ríkisvaldið fellir þann dóm að tilraunin hafi mistekist.“ Hann segist einnig hafa áhyggjur af því að viðhorf til jafnréttismála muni breytast til hins verra við það að lögfesta jafnlaunavottun. „Þegar fólk þarf ekki að hugsa sjálft um þessi mál vegna þess að ríkið hefur tekið frumkvæðið er hætt við að það setji þetta málefni í sama flokk og eftirlit og skatta – kvaðir en ekki tækifæri.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is