Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gerir samkeppnishæfni atvinnulífsins að umfjöllunarefni sínu í pistli á heimasíðu samtakanna. Þar leggur hann meðal annars til að gera söluhagnað íslenskra fyrirtækja af hlutabréfum skattfrjálsan eins og arðinn.

Tilefni skrifanna er sú þróun að íslensk fyrirtæki hafa stofnað eignarhaldsfélög í Hollandi undanfarið til að ná fram hagstæðara skattaumhverfi. Nýlegasta dæmið flutningur Eignarhaldsfélagsins Oddaflug á eign sinni  í FL Group til dótturfélags í Hollandi. "Ástæðan fyrir því að fyrirtækin gera þetta er að söluhagnaður af hlutabréfum skapar skattskyldu hjá íslenskum fyrirtækjum en ekki hjá hollenskum eignarhaldsfélögum.  Með því að stofna hollenskt eignarhaldsfélag er hægt að mynda söluhagnaðinn þar og flytja hann eftir atvikum til Íslands sem arð sem ekki er greiddur skattur af," segir Vilhjálmur.


Að mati Vilhjálms þarf að koma í veg fyrir þetta og besta leiðin til þess er að breyta skattkerfinu þannig að það verði samkeppnishæft. Breytingar á skattkerfinu eru að mati Vilhjálms  í raun í takt við hugsunina í skattlagningu tekna fyrirtækja og skattlagningu atvinnulífsins í heild. "Þegar fjármagnstekjuskatturinn var til að mynda tekinn upp var það grundvallarsjónarmið að skatturinn ætti ekki að hafa áhrif á skipulag atvinnulífsins, þ.e. hvort menn vildu reka móðurfélag og dótturfélög, hlutdeildarfélög eða hvaða annað fyrirkomulag sem menn telja hagstætt frá rekstrarlegum sjónarmiðum. Með öðrum orðum var litið á atvinnulífið sem eina heild og skatturinn var hafður hlutlaus gagnvart skipulagi einstakra fyrirtæka og fyrirtækjasamstæða. Meginmálið var að leggja skattinn á þegar peningarnir væru teknir út úr atvinnulífinu sem arður eða söluhagnaður," segir Vilhjálmur.

Í hádegisréttum RúV í dag útfærði Vilhjálmur hugmyndir sínar um breytingar á skattkerfinu og sagði þá meðal annars að tekjuskattur fyrirtækja þarf að lækka enn frekar en hann er nú 18%. Vilhjálmur telur að til þess að bæta samkeppnishæfni íslenska skattkerfisins gagnvart öðrum ríkum væri æskilegt að tekjuskatturinn yrði 12%.