EFLA verkfræðistofa hefur undirritað sjötta rammasamninginn við norsku vegagerðina Statens Vegvesen. Hefur EFLA þá gert rammasamninga við Statens Vegvesen á fjórum af fimm svæðum Noregs á fjölbreyttum sviðum samgönguverkefna. Í tilkynningu segir að í nýfrágengnum rammasamningi við Statens Vegvesen á miðsvæði Noregs fái EFLA framúrskarandi umsögn í hæfnismati og hæstu einkunn af bjóðendum sem eru meðal annars öll helstu verkfræðifyrirtæki Noregs. EFLA er þegar að vinna að verkefnum á miðsvæði Noregs, m.a. hönnun á tveimur brúm rétt norðan Þrándheims sem eru 94 metra og 40 metra langar.

EFLA hefur á undanförnum árum unnið fjölmörg verkefni fyrir vegagerðina í Noregi um allt landið og er Statens Vegvesen orðinn meðal stærstu viðskiptavina EFLU. Í tilkynningunni er haft eftir Guðmundu Þorbjörnssyni, framkvæmdastjóra EFLU, að fyrirtækið hafi lagt mikla áherslu á að skapa fyrirtækinu sterka stöðu í samgönguverkefnum í Noregi og því sé það mikilvægur áfangi að fá svo góða umsögn hjá þessum lykilviðskiptavini.

Það sem af er árinu hefur EFLA fengið 20 ný verkefni frá Noregi sem unnin eru á Íslandi, til samanburðar við 20 verkefni allt árið 2012. Í tilkynningunni segir að um mjög fjölbreytt verkefni sé að ræða sem yfir 40 sérfræðingar á öllum sviðum EFLU á Íslandi taka að staðaldri þátt í. Meðal nýrra verkefna má nefna áhættu- og áfallaþolsgreiningu vegna lengingar á Óperugöngunum í miðborg Osló.