Verkfræði- og ráðgjafafyrirtækið EFLA hlaut hæstu matseinkunn þeirra sem buðu í verk Statnett, sem á og rekur flutningskerfi raforku í Noregi. Því mun EFLA endurnýja samning við félagið, frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Áætla má að umfang EFLU í samningnum sé um tveir milljarðar króna, ef átta ára samningstíminn verður nýttur að fullu. „Þetta er fjórði rammasamningurinn í röð frá 2009 sem EFLA hlýtur hjá Statnett í tengslum við hönnun og ráðgjöf fyrir háspennulínur. Uppfylla þarf strangar hæfniskröfur til að fá slíkan samning og er EFLA með hæstu matseinkunn út frá faglegu skilamati þeirra sem buðu í samninginn,“ segir í tilkynningunni.

„Samningarnir við Statnett hafa verið kjölfesta orkusviðs EFLU í Noregi og skapað okkur þann rekstrargrundvöll sem við höfum svo byggt áfram á. Það er eftirtektarvert að EFLA hefur undanfarin ár ávallt fengið fullt hús stiga fyrir mat á gæðum, hæfni og reynslu,  mun hærra skor en samkeppnisaðilarnir, en við keppum við stærstu verkfræðistofur Norðurlandanna. Þetta er afar stór viðurkenning fyrir EFLU og þann sterka hóp fagfólks sem að baki stendur,“ segir Ragnar Jónsson, framkvæmdastjóri EFLU í Noregi.

EFLA hefur starfrækt dótturfélagið EFLU AS í Noregi frá árinu 2008. Skrifstofan er í Osló þar sem um 30 manns starfa við störf tengt orkuráðgjöf, samgöngumál og byggingu.