EFLA verkfræðistofa og Reitir fasteignafélag hafa skrifað undir samning um leigu á 3.800 fermetra húsnæði í nýjum skrifstofugörðum Reita að Höfðabakka 9. Viðar Þorkelsson, forstjóri Reita, segir að þetta styrki verulega starfsemina að Höfðabakka. Þar sé verið að standsetja 25 þúsund fermetra skrifstofugarða, sem sé þróunarverkefni Reita. Til hliðsjónar eru höfð sjónarmið um vistvæna byggð.

EFLA sem er eitt stærsta ráðgjafarfyrirtæki landsins er nú með aðstöðu á fjórum stöðum í Reykjavík en mun sameina þær í eina starfsstöð í húsnæðinu að Höfðabakka. Nýju höfuðstöðvarnar munu hýsa um 160 starfsmenn en alls starfa um 220 manns hjá EFLU, meðal annars í Reykjanesbæ, á Selfossi, Reyðarfirði og Akureyri.

„Það hefur staðið til í nokkurn tíma að sameina starfsstöðvarnar í Reykjavík. Möguleikarnir sem okkur buðust í skrifstofugörðunum að Höfðabakka gerðu okkur kleift að sameina starfsstöðvarnar á hagkvæman og mjög svo hentugan máta,“ er haft eftir Guðmundi Þorbjörnssyni, framkvæmdastjóra EFLU í tilkynningu. Hann segir að reksturinn muni eflast í nýju sérhönnuðu húsnæði.

Síðast var Háskólinn í Reykjavík til húsa þar sem EFLA verður. Marel hafði sína fyrstu starfsstöð í þessu húsnæði. Viðar segir við hæfi að einn stærsti leigjandinn á þessu svæði verði verkfræðistofa.