Efla verkfræðistofa hefur opnað starfsstöð á Þórshöfn á Langanesi. Starfsstöðin er liður í því að styrkja starfsemi fyrirtækisins á svæðinu vegna aukinna umsvifa bæði á Þórshöfn og í Finnafirði. Starfsmenn Eflu sem munu koma að verkefnum á svæðinu munu því hafa aðsetur í nýrri starfstöð á Þórshöfn.

Meginstarfsemi Eflu er á Íslandi og í Noregi. Höfuðstöðvarnar á Íslandi eru í Reykjavík en fyrirtækið rekur einnig starfsstöðvar á Akureyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Seyðisfirði, Reykjanesbæ, Selfossi og nú síðast Þórshöfn.

Hafsteinn Helgason, sviðsstjóri viðskiptaþróunar hjá Eflu, segir mikil tækifæri vera til staðar á Norðausturhorninu. Mikill uppgangur sé þar, bæði í atvinnumálum og ferðaþjónustu, sem geri t.a.m. að verkum að vöntun er á húsnæði. Hann segir að ýmis verkefni séu í vinnslu, í Finnafirði og í tengslum við Olíumál, og ef þau verkefnu gangi upp muni verða gífurleg fólksfjölgun á þessu svæði á næstu árum. Efla hefur starfað talsvert með sveitarfélögum á svæðinu og segir Hafsteinn að mörg verkefni séu í pípunum.

Hann segir opnun starfsstöðvarinnar vera lið í bæta starfsemi Eflu á svæðinu. Þó stendur ekki til að hafa fulla starfsemi þar fyrst um sinn, heldur sé þetta hugsað sem tímabundið athvarf fyrir fólk sem er að vinna að verkefnum Eflu á svæðinu. Nauðsynlegt sé að hafa góða aðstöðu ef sinna eigi verkefnum á fullnægjandi hátt.