*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 6. september 2020 10:03

Efla velti sjö milljörðum

Hagnaður verkfræðistofunnar nam 205 milljónum á síðasta ári, sem var ríflega þriðjungslækkun frá árinu 2018.

Ritstjórn
Guðmundur Þorbjörnsson er framkvæmdastjóri Eflu.
Gígja Einars

Verkfræðistofan Efla hagnaðist um 205 milljónir króna á síðasta ári og lækkaði hagnaður stofunnar um 123 milljónir frá fyrra ári, það er um 37,5% milli ára.

Rekstrartekjur Eflu námu tæplega 7,1 milljarði króna en árið áður velti verkfræðistofan 6,9 milljörðum króna, svo tekjurnar jukust um 2,5%, en á sama tíma jukust heildarrekstrargjöldin um 4,9%, úr rétt tæplega 6,5 milljörðum í 6,8 milljarða. Þar af hækkuðu laun og launatengd gjöld þó minna, eða um 2,9% úr 5 milljörðum í 5,2 milljarða króna.

EBITDA félagsins lækkaði hins vegar um 37,1%, úr 402 milljónum króna í 253 milljónir króna, en rekstrarhagnaðurinn (EBIT) lækkaði enn meira, eða um 42,9%, úr 334 milljónum í 191 milljón króna.

Eignir Eflu námu 2,5 milljörðum króna í árslok 2019, þar af nam eigið fé tæplega 1,3 milljörðum og skuldirnar rétt rúmlega 1,2 milljörðum. Í ársbyrjun námu eignirnar 2,7 milljörðum, þar af eigið fé 1,5 milljörðum og skuldirnar rétt tæplega 1,2 milljörðum. Þar með lækkaði eiginfjárhlutfallið úr 55,2% í 50,9% á árinu.

Verkfræðistofan greiddi hluthöfum sínum 250 milljónir króna í arð á síðasta ári vegna rekstrarársins 2018, en í árslok 2019 voru þeir 134 talsins. Þar af var Efla hf. sjálf stærsti hluthafinn með 8,03% hlut, en næstu þar á eftir eru Arinbjörn Friðriksson, Jón Viðar Guðjónsson, Ragnar Jónsson, Egill Þorsteins, Hafsteinn Helgason, Júlíus Karlsson, Reynir Sævarsson og Harald Ragnar Óskarsson, með frá um 3,5% hlut niður í tæplega 2% hlut. Guðmundur Þorbjörnsson er framkvæmdastjóri Eflu.