*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Fólk 19. júlí 2020 19:01

Eflandi að starfa við kolefnisföngun

Kristinn Ingi Lárusson, nýráðinn viðskiptaþróunarstjóri hjá Carbfix, segir fyrirtækið ætla að færa sig út fyrir landsteinana.

Sigurður Gunnarsson
Kristinn Ingi Lárusson
Aðsend mynd

„Þetta kemur mögulega til með að geta hjálpað þjóðum heimsins í loftslagsbaráttunni sem þegar er þegar á vörum flestra og við sjáum t.d. að Carbfix kolefnisförgunaraðferðin skipar stóran sess í aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum sem kynnt var nýverið.

Lausn Carbfix er ekki bara frábært tækifæri viðskiptalega, heldur erum við líka með göfugra markmið um að bjarga heiminum frá loftslagsvánni. Við ætlum okkur stóra hluti,“ segir Kristinn Ingi Lárusson sem hefur verið ráðinn viðskiptaþróunarstjóri hjá Carbfix, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur. 

Carbfix verkefnið var stofnað árið 2007 af Orkuveitunni, Háskóla Íslands, CNRS í Toulouse og Earth Institute Columbia University en Carbfix ohf., gerðist svo dótturfélag Orkuveitunnar í desember síðastliðnum. 

„Í stuttu máli er Carbfix að takast á við koldíoxíðlosun sem er gríðarlegt vandamál á heimsvísu. Sú aðferð sem Carbfix beitir til að farga koldíoxíð (CO2) felst í því að fanga það, blanda með vatni og dæla því ofan í berglög þar sem það verður að steini. Þetta er í raun aðferð sem náttúran hefur beitt í milljónir ára til að binda kolefni en í kjölfar áralangrar nýsköpunar og þróunar getum við núna hermt eftir og hraðað ferlinu.“ 

„Í dag er CO2 úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar sem Orka náttúrunnar, systurfélag Carbfix, rekur dælt niður um borholur og Carbfix aðferðin þegar verið notuð til að farga tæplega 70 þúsund tonnum af CO2. Markmiðið að stækka verkefnið enn frekar bæði hér á landi og erlendis. Fyrsta skrefið er að byggja förgunarverksmiðju á Íslandi og síðan færa okkur út fyrir landsteinana. Við vitum að þetta virkar og nú er kominn tími til að leysa kraftana úr læðingi.“ 

Leitar að tekjumöguleikum

Hlutverk Kristins verður að stjórna viðskiptaþróun fyrirtækisins. Það felur í sér m.a., viðskiptaleg þróun og stefnumótun, mótun og sókn á nýja markaði, ímynd og markaðssetningu, og að koma upp starfs- og viðskiptasamböndum bæði hér heima og erlendis, þar sem þekking hans á alþjóðaviðskiptum kemur að góðum notum. Einnig mun hann fást við að þróa viðskiptamódelið og finna nýja tekjumöguleika fyrir fyrirtækið. 

„Þetta er virkilega spennandi og allt öðru vísi geiri en það sem ég hef komið að hingað til. Ég hef hingað til ávallt verið í fjármála- fjarskipta eða rekstrarstörfum. Ég var að reka fyrirtæki í sjö ár og fer núna út í eitthvað sem er gríðarlega spennandi og svona allt öðruvísi. Þetta eflir mann á alla vegu.“ 

Kristinn starfaði fyrir sem framkvæmdastjóri alþjóðlega fjarskiptafyrirtækisins On-Waves sem þjónar skipaflotum um allan heim. Þar áður starfaði hann sem forstöðumaður viðskiptaþróunar Símans og síðar forstöðumaður viðskiptaþróunar móðurfélagsins Skipta á árunum 2005 til 2013 og þar á undan í fjármálageiranum frá 1997. Kristinn hefur jafnframt setið víða í stjórnum fyrirtækja bæði hérlendis sem og erlendis á sviði nýsköpunar, fjarskipta og fjármála. 

Alætur á íþróttir og útivist

Kristinn hefur ferðast mikið vegna fyrri starfa og náms og meðal annars búið í Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi og nú síðast í Danmörku með fjölskyldu sinni. Eiginkona hans er Ingibjörg Sigfúsdóttir kennari og saman eiga þau tvo syni og eina dóttur, Kristófer Inga 21 árs, Arnór Inga 19 ára, Sigríði Svövu 14 ára og hundinn Tinnu. Að undanskildum elsta syni þeirra sem býr í Frakklandi, stefnir fjölskyldan á að flytja aftur heim í ágúst og segir Kristinn að það sé mikil tilhlökkun að geta varið tíma sínum með fjölskyldu og vinum í meira en einn og einn dag í senn. 

Hann segir fjölskylduna vera alætur á íþróttir og útivist en sjálfur hefur hann verið að synda og hjóla töluvert upp á síðkastið ásamt einhverju fikti í golfi og hlakkar sérstaklega að njóta útivistar og sundlauga landsins við heimkomuna. Þrátt fyrir mikla viðveru erlendis vegna starfa finnst Kristni gaman að ferðast.

„Eins furðulega og það hljómar þá finnst mjög voða gaman að ferðast út um allan heim og skoða mismunandi menningu og siði. Við fjölskyldan höfum til að mynda farið í fjölskylduferðir til Kína sem og Malasíu ásamt að hafa ferðast um þvert alla Evrópu og Bandaríkin. Það er mjög skemmtilegt að leyfa krökkunum að upplifa mismunandi menningarheima.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.