Verkfalli Eflingar í borginni er lokið eftir að samninganefnd félagsins og Reykjavíkurborgar náðu saman á fjórða tímanum í nótt. Verkföll höfðu staðið í rúman mánuð með tilheyrandi röskun á sorphirðu og starfsemi leikskóla.

Í tilkynningu frá Eflingu segir að samkomulagið feli í sér allt að 112 þúsund króna launahækkun á samningstímanum miðað við fullt starf. Kjarasamningar síðasta árs, iðulega kenndir við lífskjör, fólu í sér 90 þúsund króna taxtahækkun. Í tilkynningunni segir að hækkun um fram hana hafi verið náð með breytingu á launatöflu sem feli í sér að meðaltali tæplega 8 þúsund króna viðbótarlaunahækkun.

Einnig er samið um „sérstaka viðbótarhækkun í formi sérgreiðslu“. Sú er 15 þúsund krónur hjá þeim sem lægst launin hafa en fjarar út eftir því sem ofar dregur. Samningurinn felur einnig í sér styttingu vinnuvikunnar sem útfærð er bæði fyrir dagvinnu- og vaktavinnufólk. Samningurinn gildir til marsloka 2023.

„Áður þaggaðar og jaðarsettar konur, sem fáir höfðu fram að því haft áhuga á, stigu fram með sjálfsvirðinguna að vopni og skiluðu skömm láglaunastefnunnar þangað sem hún á heima. Láglaunakonur búa yfir ólýsanlegum kröftum sem þær ákváðu að nýta í eigin baráttu frekar en að fórna sér ævina langa í að taka til eftir aðra,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur formanni Eflingar í tilkynningunni.

„Allar stofnanir valdsins stóðu sameinaðar gegn okkur. Okkur átti að berja til hlýðni, eins og tíðkast hefur áratugum saman. En Eflingarfélagar hjá borginni hafa fært valdastéttinni og raunar samfélaginu öllu fréttir; þegar verkafólk kemur saman í krafti fjöldans, samstöðunnar og baráttuviljans þá stöðvar það ekkert. Eflingarfélagar hjá borginni hafa skrifað nýjan kafla í sögu íslenskrar verkalýðsbaráttu,“ sagði Sólveig Anna.