Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir félagið Eldum rétt hafa nýtt sér bágindi verkafólks frá ríkjum austurhluta Evrópu þar sem laun eru mun lægri en hér á landi. Í tilkynningu frá félaginu segir að þjónustukaup Eldum rétt af starfsmannaleigunni Menn í vinnu hafi verið margfalt umfangsmeiri en framkvæmdastjóri þess hafi sagt.

Starfsmannaleigan hefur verið kærð til Héraðssaksóknara fyrir mansal og fleiri gróf brot. Henni hefur að auki, ásamt Eldum rétt, verið stefnt fyrir Héraðsdóm. Segir Eflig að Eldum rétt neiti enn, eitt notendafyrirtækja, að rétta hlut rúmenskra verkamanna sem þjónustuðu fyrirtækið á sama tíma og þeir hafi orðið fyrir því sem félagið kallar gróf réttindabrot.

Í dómsskjölum sem fram hafa komið vegna stefnu rúmenskra verkamanna gegn fyrirtækinu Eldum rétt segir Efling að fram komi að framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Kristófer Júlíus Leifsson, hafi farið með ósannindi í fjölmiðlum fyrr á þessu ári um viðskipti fyrirtækisins við starfsmannaleiguna.

Hann sagði Eldum rétt aðeins hafa leigt fjóra menn af starfsmannaleigunni Menn í vinnu í fjóra daga en Efling segir að hið rétta sé að Eldum rétt leigði mennina í þrjár til fjórar vikur, sem og að mennirnir hafi ekki verið fjórir heldur sex.

Starfsmannaleigan Menn í vinnu er nú í gjaldþrotaskiptum eftir umfjöllun fréttaskýrinarþáttarins Kveiks í Ríkissjónvarpinu þar sem sagt var að félagið stæði í brotastarfsemi.

Efling er með 48 útistandandi launakröfur á hendur þrotabúi Manna í vinnu og kærði auk þess Menn í vinnu til Héraðssaksóknara 21. ágúst 2019 fyrir umfangsmikla brotastarfsemi, þar á meðal mansal og nauðungarvinnu.

Mennirnir kallaðir „vöruheiti“

Umrædd dómsskjöl eru sögð sýna með óyggjandi hætti að þrír verkamenn frá Mönnum í vinnu unnu í fjórar vikur hjá Eldum rétt og einn í þrjár viku. Þetta megi sjá í tímaskýrslum sem lögmannsstofa Eldum rétt lagði sjálf fram. Reikningur frá starfsmannaleigunni til Eldum rétt sýnir fram á hið sama, en þar eru nöfn verkamannanna og talin upp undir liðnum „vöruheiti“.

Þetta stangast á við þau ummæli framkvæmdastjóra Eldum rétt, sem hann lét hafa eftir sér í Stundinni 2. júlí, að málið snerist um „starfsmenn sem unnu bara í fjóra daga hjá okkur“.

Í samtali við Vísi 3. júlí sagði Kristófer mennina aftur hafa „unnið hjá Eldum rétt í gegnum Menn í vinnu í samtals fjóra daga á tveggja til fjögurra vikna tímabili í janúar og febrúar“ og ræddi í viðtölum við Mbl.is og RÚV endurtekið um „fjóra daga“.

Kristófer vísaði til umræddra „fjögurra daga“ sem rök fyrir því að kröfur mannanna, sem urðu fyrir umfangsmiklum brotum meðan þeir unnu fyrir Eldum rétt, væru óhóflegar og brotin sem þeir urðu fyrir meðan þeir gegndu störfum fyrir Eldum rétt léttvæg. Lét hann að því liggja að Eldum rétt hafi leigt mennina í góðri trú og varpaði ábyrgð á Vinnumálastofnun.

Eldum rétt er í hópi þriggja notendafyrirtækja sem leigðu starfsmenn af Mönnum í vinnu í upphafi árs 2019 undir keðjuábyrgð, þó fjallað hefði verið um starfsmannaleiguna í Kveik RÚV nokkrum mánuðum fyrr. Öll fyrirtækin nema Eldum rétt féllust á að rétta hlut starfsmanna án dómsmáls, eftir að Efling sendi kröfubréf fyrir þeirra hönd í apríl 2019 á fyrirtækin.

Reynt á keðjuábyrgð með stefnu

Efling fékk lögmannsstofuna Rétt til að reka málið fyrir hönd starfsmannanna, sem allir eru rúmenskir að uppruna og félagsmenn í Eflingu. Stefna á hendur Mönnum í vinnu, forsvarsmönnum Manna í vinnu persónulega og Eldum rétt var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. júní 2019.

Í málinu hefur í fyrsta sinn verið látið reyna á svokallaða „keðjuábyrgð“ notendafyrirtækja starfsmannleiga fyrir dómi. Samkvæmt keðjuábyrgð ber fyrirtæki sem leigir starfsmenn af starfsmannaleigu fulla ábyrgð á að starfskjör þeirra séu í samræmi við öll lágmarksréttindi á íslenskum vinnumarkaði og ekki lakari en þau hefðu verið í beinni ráðningu.

Laun gufa upp í óeðlilegum frádráttarliðum

Stefnan á hendur Eldum rétt, Mönnum í vinnu og forsvarsmönnum Manna í vinnu er vegna vangoldinna launa, ólögmæts frádráttar, nauðungarvinnu og vanvirðandi meðferðar gegn verkamönnunum fjórum.

Starfsmannaleigan er sögð hafa nýtt sér fákunnáttu og bágindi mannanna til að brjóta á þeim á margvíslegan hátt, en þannig var hægt að leigja þá út ódýrara en ella til notendafyrirtækja á borð við Eldum rétt.

Mennirnir eru sagðir hafa verið látnir sæta óeðlilegum frádrætti af launum, meðal annars yfir 70 þúsund krónur á mánuði fyrir koju í herbergi í iðnaðarhúsnæði þar sem allt að 8 menn gistu saman.

Fjöldi og umfang annarra vafasamra frádráttarliða var slíkur að mennirnir hafi fengið lítil sem engin raunveruleg laun útborguð fyrir vinnu sína. Dómara hefur verið úthlutað í málinu og verður næsta þinghald 23. janúar næstkomandi.

„Eldum rétt nýttu sér bágindi verkafólks frá Austur-Evrópu í gegnum það sem ég tel réttast að kalla einhvers konar mansalshring, rekinn af alræmdum síbrotamönnum í starfsmannaleigubransanum. Framkvæmdastjórinn laug svo að fjölmiðlum í stað þess að fallast á boð um að rétta hlut þeirra,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar með vísun í samningaviðræður Eflingar við Eldum rétt í júní og júlí 2019.

„Eldum rétt er á harðahlaupum undan sannleikanum í þessu máli,“ sagði Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar.
„Málflutningur Eldum rétt í þessu máli hefur frá byrjun einkennst af undanbrögðum, ólíkt hinum notendafyrirtækjunum sem öll hafa verið fús að gangast við ábyrgð sinni. Viðbrögð þeirra eru til sóma. Það er hins vegar óbragð af Eldum rétt.“

Stjórnendur Manna í vinnu ráku áður starfsmannaleiguna Verkleiguna sem fór í gjaldþrot vegna metfjölda launakrafna frá Eflingu í maí 2018. Fjallað var ítarlega um Menn í vinnu í umfjöllum Kveiks á RÚV í október 2018 undir heitinu „Svarta hliðin á íslenskum vinnumarkaði.“ Sömu stjórnendur reka í dag starfsmannaleiguna Seiglu ehf. undir nýrri kennitölu.