„Verkafólk á Íslandi hefur of lengi þurft að þola láglaunastefnu og stjórnlausan ójöfnuð. Verkafólk hefur skapað góðæri síðustu ára með vinnu sinni.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í tölvupósti sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar sendi á félagsmenn aðeins örfáum mínútum eftir að viðræðum var slitið nú síðdegis.

Í póstinum segir Sólveig að þrátt fyrir ofangreint hafi atvinnurekendur neitað að ganga að „sanngjörnum kröfum Eflingar og samflotsfélaga.“ Verkfall sé „þaulreynd og lögvarin“ aðferð til að jafna hlut vinnandi fólks gagnvart atvinnurekendum.

Lítið er sagt berum orðum um næstu skref, en nauðsynlegar upplýsingar sagðar verða sendar til félagsmanna varðandi verkfallskosningu „með eins miklum fyrirvara og hægt er“.

Pósturinn í heild:

Kæri félagsmaður

Í dag var viðræðum Eflingar og samflotsfélaga við SA slitið hjá Ríkissáttasemjara. Þar með hefur félagið fengið heimild til að hefja verkfallsaðgerðir.

Verkafólk á Íslandi hefur of lengi þurft að þola láglaunastefnu og stjórnlausan ójöfnuð. Verkafólk hefur skapað góðæri síðustu ára með vinnu sinni. Atvinnurekendur hafa þó neitað að ganga að sanngjörnum kröfum Eflingar og samflotsfélaga. Verkfall er þaulreynd og lögvarin aðferð stéttarfélaga til að jafna hlut vinnandi fólks gagnvart atvinnurekendum.

Mikilvægt er að félagsmenn séu upplýstir um eftirfarandi atriði varðandi verkföll:

  • Allar verkfallsaðgerðir þarf að samþykkja í kosningu meðal þeirra félagsmanna sem verkfall tekur til. Félagið mun senda allar nauðsynlegar upplýsingar til félagsmanna varðandi verkfallskosningu með eins miklum fyrirvara og hægt er.
  • Félagsmenn eru hvattir til að láta félagið hafa réttar upplýsingar um netfang þeirra og símanúmer, til að auðvelt sé að ná sambandi við þá. Senda má póst á [email protected] og láta þar koma fram kennitölu, netfang og símanúmer. Efling fer með slíkar upplýsingar í samræmi við persónuverndarlög.
  • Félagsmenn eru hvattir til að setja sig í samband við trúnaðarmann á sínum vinnustað, þar sem trúnaðarmaður er fyrir hendi.
  • Svar við algengustu spurningum um verkföll má finna á samningavef Eflingar samningar2019.is
  • Félagsmenn eru að lokum hvattir til að fylgjast vel með öllum fréttum á samningavef, heimasíðu og Facebook síðu Eflingar. Nýjustu upplýsingar um viðræður og verkföll birtast að jafnaði fyrst á samningavefnum.

Ég er stolt af því að tilheyra stétt verkafólks á Íslandi og að fá að starfa með félagsmönnum Eflingar að því að byggja réttlátt samfélag fyrir okkur öll.

Baráttukveðja,
Sólveig Anna Jónsdóttir
formaður Eflingar - stéttarfélags