Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Eflingu ber að afhenda ríkissáttasemjara félagatal sitt. Dómari hefur heimilað beina aðfarargerð í málinu. Daníel Isebarn, lögmaður Eflingar hefur kært úrskurðinn, að því er kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins.

Efling neitaði að afhenda félagatal sitt eftir að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu. Með henni eiga allir meðlimir Eflingar að fá að kjósa um sömu launahækkanir og samið var um við 18 félög Starfsgreinasambandsins (SGS).

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær að hún myndi áfrýja ef héraðsdómur myndi komast að þeirri niðurstöðu að Efling þyrfti að afhenda ríkissáttasemjara félagaskrá sína.