Forsætisráðuneytið efnir í samstarfi við OECD til alþjóðlegs málþings um einföldun regluverks að morgni 18. júní næstkomandi á Hótel Hilton Nordica í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Uppleggið verður stefna OECD um einfalt og vandað regluverk, sem liggur fyrir í tilmælum til aðildarríkjanna frá 2012. Í tilmælunum er lögð áhersla á samráð, mat á áhrifum og reglulegt endurmat löggjafar. Á málþinginu verður fjallað um hvernig megi tryggja að þessi stefna nái fram að ganga til lengri tíma.

"Forsætisráðherra mun flytja inngangserindi um aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að einfalda regluverk sem hefur áhrif á atvinnulífið. Aðrir ræðumenn koma frá OECD, Evrópuþinginu og ýmsum aðildarríkjum OECD eins og Kanada, Ástralíu og Bretlandi. Málþinginu lýkur með hádegisverðarfundi þar sem sérstaklega verður fjallað um samspil ráðuneyta og Alþingis í löggjafarstarfi," segir í tilkynningunni.