Eitt veglegasta ljósmyndauppboð seinni tíma verður haldið í Gyllta sal Hótel Borgar kl. 19 í kvöld, en tilgangur uppboðsins er að styrkja Ingólf Júlíusson, ljósmyndara og margmiðlunarhönnuð.

Ingólfur er einn þekktasti fréttaljósmyndari landsins, en hann greindist nýlega með bráðahvítblæði og hefur verið á sjúkrahúsi síðan í október. Hann starfaði m.a. sem ljósmyndari fyrir Reuters fréttastofuna og hefur einnig starfað fyrir Viðskiptablaðið á fyrri árum, bæði sem umbrotsmaður og ljósmyndari. Eftir áramót mun hann fara til Svíþjóðar þar sem hann mun gangast undir mergskipti.

Samhugur félaga Ingólfs í stétt ljósmyndara varð til þess að þeir tóku höndum saman og ákváðu að efna til uppboðsins til styrktar honum. Allur ágóði af ljósmyndauppboðinu mun renna til Ingólfs og fjölskyldu hans.

Á uppboðinu verður m.a. að finna málverk eftir Tolla sem hann gaf til söfnunarinnar, myndavél sem margir af þekktustu ljósmyndurum landsins hafa notað undanfarið og inniheldur óframkallaða filmu. Þá munu margir af helstu ljósmyndurum og blaðaljósmyndurum landsins gefa myndir sínar á uppboðið. Meðal þeirra eru Ragnar Axelsson (RAX), Ragnar Th. Sigurdsson, Spessi , Páll Stefánsson, Ari Magg, Christofer Lund, Gassi, Kristinn Ingvarsson, Júlíus Sigurjonsson, Árni Sæberg, Geirix, Haraldur Guðjónsson (HAG), Sigtryggur Ari Jóhannsson, Jóhann Ágúst Hansen, Stefán Karlsson, Pjetur Sigurðsson og Vilhelm Gunnarsson.

Þá hafa fjölmörg fyrirtæki lagt málefninu lið og má þar m.a. nefna Beco, Hótel Borg, Pixlar, Velmerkt, Gallery Fold, Svansprent og Vífilfell. Allir sem að uppboðinu koma gefa vinnu sina.