Rudolf Walter Lamprecht frá Sviss hefur í gegnum félagið sitt, Heiðarlax, keypt stórt einbýlishús á horni Skothúsvegar og Tjarnargötu í Reykjavík. Iðnaðarmenn hafa unnið að því undanfarnar vikur að taka húsið allt í gegn og byggja þar meðal annars sólskála. Húsið stendur við hlið Bakkavararhússins svokallaða.

Lamprecht var til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum þegar hann keypti jarðir í Geithellnadal í Álftafirði fyrir ofan Vík í Mýrdal til að stunda þar fiskirækt. Í umfjöllun Fréttablaðsins frá 2007 kom fram að hann ræki eitt stærsta fiskeldisfyrirtæki heims með starfsstöðvar víða um heim.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Annar Svisslendingur, Thomas Martin Seiz, hefur verið í fjölmiðlum síðustu daga vegna komu Tom Cruise til landsins. Hann keypti Hrafnabjörg, sem var áður í eigu Jóhannesar Jónssonar, og hefur leigt húsið til Hollywood stjörnunnar fyrir fimmtugsafmælið hans í sumar. Húsið stendur í hliðinni á móti Akureyri þar sem keyrt er um áður en farið er um Víkurskarðið og nálægt væntanlegum Vaðlaheiðagöngum.

Seiz rekur samkvæmt Vísi og DV tölvufyrirtæki í heimalandi sínu. Hann veitir ferðaþjónustu á Nolli í Eyjafirði þar sem eru tvö sumarhús. Þá á hann tvö íbúðarhús í Grenivík. Og nú Hrafnabjarg sem leigt er undir kvikmyndastjörnur.