Björn Valur segir að staðan í kjaraviðræðum og yfirstandandi verkföll séu svo alvarleg að stjórn- og stjórnarandstaða verði að koma saman með lausn á vandanum. Þetta var haft eftir Birni Vali í Vikulokunum á RÚV. Hann sagði jafnframt að ef leiðtogar stjórnmálanna hefðu ekki dug í sér til að koma með lausnir á vandanum væri réttast að skipta þeim út.

Auðlegðarskattar og veiðigjöld í þágu ríkra

Björn Valur hafði orð á því að ríkisstjórnin hefði gefið ríkum Íslendingum 250 milljarða það sem af væri kjörtímabilsins, enda væri það í anda stefnu flokkanna. Það hefði til dæmis verið gert með afnámi auðlegðarskatts, en sólarlagsákvæði sem var lögfest í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar- og VG, var ekki framlengt af hálfu núverandi ríkisstjórnar.

Björn Valur sagði að skuldaleiðrétting, lækkun veiðigjalda og skattalækkanir í þágu fyrirtækja væru sama marki brennd. Fyrir vikið væri ekkert eftir til skiptanna fyrir launafólk, að mati Björns.