Verne Holdings ehf., sem er í eigu Novators og General Catalyst, skrifaði í dag undir samninga við Landsvirkjun, Farice og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar um raforku, gagnaflutninga, hús og lóð fyrir nýtt alþjóðlegt gagnaver við Keflavíkurflugvöll.

Gagnaverið rís á þessu ári og tekur til starfa á fyrstu mánuðum næsta árs. Áætlað er að heildarfjárfesting Verne í verkefninu verði um 20 milljarðar króna á fimm árum og að bein og óbein efnhagsleg áhrif innanlands nemi um 40 milljörðum króna. Á næstu fjórum árum er áætlað að verði til yfir 100 störf vegna gagnaversins.

Gagnaverið mun hýsa tölvubúnað, netþjóna og gagnageymslur fyrir alþjóðlega stórnotendur, og útvega þeim örugga aðstöðu, orku og nettengingar.

Samningur Verne við Farice tryggir fyrirtækinu flutningsrými í sæstrengnum Farice-1 og nýjum Danice streng. Verne mun hafa aðgang að 160 gígabitum á sekúndu en til samanburðar má nefna að allir landsmenn, þar með talin fyrirtæki, nota nú tæpa 4 gígabita á sekúndu.

Samningur Verne við Landsvirkjun gerir ráð fyrir skuldbindingu félagsins til að kaupa raforku í stighækkandi magni upp að 25 MW árið 2012. Jafnframt hefur Verne rétt til að panta allt að 25 MW í viðbót sem Landsvirkjun afgreiðir innan tiltekinna tímamarka.

Þá kaupir Verne tvö stálgrindarhús, 10.000 og 13.000 fermetra, af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar. Þá eru stækkunarmöguleikar á lóð til byggingar tveggja húsa til viðbótar.