Eftir sex ársfjórðunga af neikvæðum hagvexti hefur evrusvæðið loks náð 0,3% hagvexti á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Frakklandi og Þýskalandi ber að þakka fyrir þennan árangur en þessi tvö stærstu hagkerfi Evrópu voru með mestan hagvöxt. Bundesbank, Seðlabanki Þýskalands, segir að á seinni hluta þessa árs muni þýska hagkerfið vaxa á venjulegum og stöðugum hraða. Þetta kemur fram á vef Deutsche Welle .

Útflutningur hefur yfirleitt verið helsti drifkraftur vaxtar í þýska hagkerfinu en á öðrum ársfjórðungi treysti hagkerfið meira á einkaneyslu. Séfræðingar telja að veðurfarið í Evrópu hafi mikið með þennan hagvöxt að gera en veturinn var óvenju langur og kaldur.

Seðlabankinn beindi síðan orðum sínum til stjórnmálamanna og hvatti þá til að halda áfram að ná niður halla á fjárlögum og að halda aftur af dýrum kosningaloforðum en kosningar í Þýskalandi verða í september.