Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur borist 117 kærur það sem af er þessu ári. Af þeim hefur 99 málum verið úthlutað til rannsóknar. Af þeim enduðu 42 með ákærum.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Ríkislögreglustjóra undir yfirskriftinni: Sterk staða efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

Þar segir að mörg þeirra mála sem fari í rannsókn séu þess eðlis að fleiri en einn starfsmaður koma að rannsókninni.

„Almenn þróun virðist vera í þá átt að málin sem kærð eru til efnahagsbrotadeildar eru mörg hver umfangsmeiri en áður, teygja anga sína til annarra landa og þau varða meiri fjárhagslega hagsmuni," segir í tilkynningunni.

Ekki fleiri síðan 2004

Þá segir að ákærur hafi ekki verið fleiri í sögu efnahagsbrotadeildarinnar ef undan er skilið árið 2004. Þá voru ákærurnar 46.

„Staða mála í efnahagsbrotadeild er betri en hún hefur nokkru sinni verið. Afköst deildarinnar hafa aukist og það markmið sem deildin hefur sett sér til að stytta þann tíma sem líður frá því að kæra berst þar til rannsókn hefst hefur gengið eftir," segir í tilkynningunni.

Nú bíði 18 mál rannsóknar hjá deildinni. Elsta málið er frá því í lok október. Önnur eru frá því í nóvember og desember.