Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sameinast embætti sérstaks saksóknara í dag. Við sameininguna er rannsóknardeild ríkislögreglustjóra, sem rannsakar skatta- og efnahagsbrot, lögð niður. Þá flyst ákæruvald og þar með sókn þeirra mála sem þegar sæta ákærumeðferð fyrir dómstólum af hálfu ríkislögreglustjóra til embættis sérstaks saksóknara eða alls 85 mál. Fjárveitingar til efnahagsbrotadeildar munu færast til embættis sérstaks saksóknara og nema þær alls um 124 milljónum króna á ársgrundvelli. Alls flytjast 14 stöðugildi til sérstaks saksóknara við sameininguna.