David Green, nýr forstjóri efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar (e. Serious Fraud Office), greindi frá því í dag að hann ætli að stokka deildina upp. Efnahagsbrotadeildin hefur verið harðlega gagnrýnd upp á síðkastið og orðspor hennar beðið hnekki vegna rannsóknar hennar á viðskiptum Tchenguiz-bræðra við Kaupþing á árunum fyrir hrun.

Breska dagblaðið Financial Times fjallar um efnahagsbrotadeildina í dag. Green tók við efnahagsbrotadeildinni í apríl og er eitt helsta markmið hans að bæta deildina og álit á henni. Á meðal aðgerða Green er að skipta efnahagsbrotadeildinni upp í fjóra hluta og mun saksóknari stýra teymi lögfræðinga sem verða í hverri deild.

Í Financial Times segir ennfremur að Green verði að greina frá því á mánudag í næstu viku hvort efnahagsbrotadeildin ætli að halda áfram rannsókn sinni á Vincent Tchenguiz í tengslum við fall Kaupþings. Haft er eftir forstjóranum, að þótt rannsóknin leiði ekki til kæru þá þýði það ekki að rannsóknin sé gölluð.