Efnahagshorfur í Bretlandi eru þær bestu sem mælst hafa í áratug og bjartsýni neytenda hefur ekki verið meiri í níu ár, samkvæmt tveimur nýjum skýrslum sem birtar voru á föstudaginn.

Þrýstihópurinn CBI sagði í maí skýrslu sinni um framleiðendur, smásölu og fyrirtæki að efnahagur Bretlands væri að þróast á mesta hraða síðan mælingar hófust árið 2003.

Breska viðskiptaráðið hefur í ljósi þessara nýju upplýsinga úr skýrslunum hækkað hagspá sína fyrir hagvöxt á árinu í 3,1% í stað 2,8% eins og áður var spáð fyrir um. Ef hagspáin helst væri þetta sterkasti hagvöxtur síðan árið 2007.

Talsmaður frá Breska Seðlabankanum sagði, í samtali við The Guardian , að þessar skýrslur sýndu fram á að langtíma efnahagsáætlun ríkisins væri að skila jákvæðum breytingum, en að það mætti ekki taka því sem gefnu að efnahagslífið lagist af sjálfu sér og því væru stór mistök að yfirgefa áætlanir sem eru að leggja grunn að bjartari framtíð.

John Longworth, framkvæmdastjóri breska viðskiptaráðsins, bætti við að það yrði að ganga úr skugga um að árið 2014 væri ekki það besta mögulega fyrir breska hagkerfið og að það þyrfti að gera allt til að koma í veg fyrir hægari vöxt í framtíðinni. Því skorar viðskiptaráðið á Seðlabanka Englands að halda vöxtum lágum eins lengi og hægt er, auk þess að ganga úr skugga um að framtíðaraukning þeirra yrði lítil og myndi gerast smám saman.