Niðustaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave hefur aukið hættu á veikingu krónunnar auk þess sem hagvaxtar og atvinnuhorfur hafa versnað vegna hennar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu peningastefnunefndar. Þar segir m.a.:

„Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um Icesave-samninginn hefur einnig aukið hættu á veikari gengisþróun krónunnar. Hins vegar hafa hagvaxtar- og atvinnuhorfur versnað samkvæmt grunnspá Seðlabankans sem birtist í Peningamálum í dag og hætta er á að hagvöxtur verði enn minni vegna niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.“

Jafnframt segir í yfirlýsingunni að hætta á veikari gengisþróun stafi af hættu á lægri lánshæfiseinkunn ríkissjóðs og verri lánskjörum ríkissjóðs á erlendum fjármálamörkuðum. „Það kann að takmarka svigrúm peningastefnunefndarinnar á næstu misserum. Niðurstaðan gæti einnig hægt á losun gjaldeyrishaftanna. Hins vegar dregur það úr neikvæðum áhrifum að ekki er líklegt að efnahagsáætlunin með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum raskist,“ segir í yfirlýsingunni.