Sífellt verður mikilvægara að í öllum rekstri hafi lykilfólk traustan aðgang að áreiðanlegum fjárhagsupplýsingum. Þetta var meðal þess sem kom á daginn við efnahagshrunið árið 2008.

Mikilvægi lánshæfisupplýsinga er leiðarstefið í umfjöllum fjölmargra fyrirlesara víðs vegar að úr heiminum á ráðstefnu um mikilvægi lánshæfisupplýsinga í viðskiptum sem nú er haldin á Hótel Natura en gestgjafinn er íslenska upplýsingafyrirtækið Creditinfo.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Creditinfo en ráðstefnan er haldin dagana 14.-15. Júní á vegum ACCIS. ACCIS eru alþjóðleg samtök fyrirtækja sem halda utan um, vinna úr og miðla upplýsingum um lánshæfi og lánstraust einstaklinga og lögaðila. Í tilkynningunni segir meðal annars:

„Greiður aðgangur að upplýsingum og greiðslusögu viðskiptavina eru grunnþættir í árangursríkum rekstri. Þetta á að sjálfsögðu við í viðskiptum á alþjóðavísu og því eru nú staddir hér á landi fjölmargir sérfræðingar á þessum og tengdum sviðum. [ ... ] Neil Munroe, forseti ACCIS, er staddur hér á landi vegna ráðstefnunnar: „Það er okkur mikil ánægja að koma hingað til Íslands til þess að hittast og ræða svo mikilvæg mál sem traust úrvinnsla og miðlun fjárhagsupplýsinga eru.“"