Sigur Ítala á HM í fótbolta gæti orðið til skammtíma hagvaxtaraukningar á Ítalíu, veikasta hagkerfi evrusvæðisins. Ríkisstjórn Ítalíu hefur nýverið kynnt áætlanir um mikinn niðurskurð í ríkisútgjöldum og veitir því ekki af jákvæðum fréttum. Ítalía bar sigurorð af Frakklandi í úrslitaleik HM á sunnudagskvöld og kemur sigur ítalska liðsins sér vel fyrir ítölsk fyrirtæki sem keppa á alþjóðavettvangi. Sigurvíma heimafyrir gæti einnig aukið á væntingar neytenda og orðið til þess að heimilin eyddu meiru á þriðja ársfjórðungi. Gleðin gæti orðið til þess að auka landsframleiðslu um meira en hálft prósent, að sögn Marco Lettieri, aðstoðarráðherra efnahagsmála en hann segir jafnframt að erfitt sé að spá fyrir um áhrifin.

Sú þjóð sem sigrar í heimsmeistarakeppninni eykur yfirleitt landsframleiðslu sína um 0,7%, miðað við rannsókn sem ABN Amro stóð fyrir. Því vonaðist hollenski bankinn til þess að Ítalir sigruðu í keppninni þar sem sú niðurstaða hefði hvað æskilegust áhrif á efnahag heimsins. "Við trúum því að sigurinn verði til þess að efla efnahag Ítalíu á árinu," segir Ruben van Leeuwen, sem skrifaði skýrsluna. Hann bendir ennfremur á að miðað við bágan efnahag landsins ætti aukningin jafnvel að verða meiri en 0,7%.

Þýskaland uppsker vel

Efnahagur landsins náði sér nokkuð á strik á fyrsta fjórðungi ársins - meðal annars með tilkomu vetrarólympíuleikanna, sem talið er að hafi aukið landsframleiðslu Ítalíu um 0,2%. "Einkaneysla ætti að hafa verið sterk á öðrum ársfjórðungi þar sem fótboltaóðir Ítalir bjuggu sig undir keppnina," segir Anna Maria Grimaldi, hagfræðingur hjá Banka Intesa. Hins vegar hefur ABN Amro einnig sýnt fram á að sú þjóð sem tapar úrslitaleiknum hefur tilhneigingu til þess að glutra niður 0,3% landsframleiðslu sinnar.

Þýskaland, gestgjafi HM mun vafalítið uppskera vel í kjölfar keppninnar. Hins vegar bendir fæst til þess að áhrifin verði gríðarleg og líklega er minnkun atvinnuleysis aðeins tímabundin, þar sem fjöldi starfa skapaðist í þjónustugeiranum á meðan HM stóð. Vinnumálastofnun Þýskaland áætlar að 50 þúsund ný störf hafi skapast á meðan HM stóð en reiknar með að um helmingur þeirra sé aðeins tímabundinn.
Þýskir bjórframleiðendur eru þó óhemju glaðir en áætlað er að bjórsala hafi aukist um 5 til 15% á meðan keppninni stóð, sé miðað við sama tíma í fyrra. Þýskaland er ennfremur á réttri leið með að ná efnahagslegum markmiðum Evrusvæðisins.

Erfitt verk fyrir höndum

Stjórnvöld á Ítalíu eiga hins vegar erfitt verk fyrir höndum. Efnahagsmálaráðherra Ítala, Tommaso Padoa-Schioppa, kynnti um helgina áform ríkisstjórnarinnar um 35 milljarða evra niðurskurð og aukna skattheimtu á næsta ári. Aðgerðirnar sem fela í sér skerðingu lífeyris og niðurskurð í heilbrigðismálum munu óhjákvæmilega draga úr eftirspurn. Ítölsk heimili eru þó tiltölulega lítið skuldsett og miklar væntingar neytenda gætu dregið úr áhrifunum. Anna Maria Grimaldi, hjá Banca Intesa spáir því að ítalska væntingavísitalan muni hækka um allt að 2 punkta milli júlí og ágúst, þökk sé HM. "Það er að minnsta kosti öruggt að sigur Ítala getur beint athyglinni frá óvinsælum aðgerðum ríkisstjórnarinnar."