Landsframleiðslan á Spáni stóð í stað á milli annars og þriðja ársfjórðungs að því er kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Spánar. Miðað við sama tímabil í fyrra hefur landsframleiðslan þó vaxið um 0,8% en hún óx aðeins um 0,2% milla fyrsta og annars fjórðungs á þessu ári og því bendir flest til þess að efnahagsleg kyrrstaða sé farinn að einkenna spænska hagkerfið. Stöðnunin er einkum rakin til fallandi samneyslu en opinber útgjöld voru skorin niður um 1,1% á milli annars og þriðja ársfjórðungs. Þessar niðurstöður koma á mjög óþægilegum tíma fyrir Spán en vaxtaálag á spænska ríkið er nú í hæstu hæðum og margir óttast að Spánn verði næsta fórnarlamb skuldakreppunnar í Evrópu á eftir Grikklandi og Ítalíu.